Eimskipafélag Íslands hefur ákveðið að skila tveimur af tíu skipa sinna fyrr en áður var áætlað, til að lækka fastan rekstrarkostnað, vegna áhrifa áf Covid 19 veirufaraldrinum. Skipin tvö sem seld voru undir lok síðasta árs fyrir andvirði hátt í hálfs milljarðs króna áttu að afhendast í byrjun næsta árs.

Jafnframt tekur nýtt siglingakerfi við tímabundið en það tekur formlega gildi í byrjun apríl. Félagið áréttar að þjónustan verði þó sambærileg og verið hefur í lykilhöfnum og félagið bjóði stysta flutningstímann milli Íslands og Evrópu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um bíður félagið nú eftir því að fá til sín tvö nýsmíðuð skip frá Kína, en afhending þeirra hefur frestast nokkuð frá upphaflegum áætlunum sem gerðu ráð fyrir afhendingu þeirra síðastliðið haust .

Aðgerðirnar eru hugsaðar tímabundnar þangað til samstarfið við Royal Arctic Line um reglulegar skipasiglingar systurskipanna þriggja, sem félögin eru að kaupa, hefst með siglingum milli Grænlands og Evrópu með viðkomu á Íslandi.

Áætlað er að samstarfið við Royal Arctic Line hefjist seint á öðrum ársfjórðungi, sem lýkur í lok júní, en Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að skip grænlenska skipafélagsins er eina af skipunum þremur sem er tilbúið og á leið yfir hafið.

„Við núverandi aðstæður erum við sérstaklega meðvituð um hlutverk Eimskips sem mikilvægs innviðafyrirtækis á okkar lykilmörkuðum í Norður-Atlantshafi og í flutningakeðjum viðskiptavina okkar,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskipafélags Íslands.

„Nýja siglingakerfið er tímabundin aðgerð í ljósi aðstæðna og ég er ánægður með að við munum viðhalda sterkri inn- og útflutnings þjónustu til og frá Íslandi og Færeyjum. Við sjáum að ferskar sjávarafurðir eru að færast í frystar og gerum m.a. breytingar á kerfinu til að mæta því. Á sama tíma leggjum við áherslu á hraða þjónustu fyrir ferskvöru til Íslands og Færeyja. Eimskip hefur gripið til ýmissa aðgerða til að tryggja öryggi starfsmanna og á sama tíma tryggja áreiðanleika og okkar víðtæku þjónustu til viðskiptavina á þessum fordæmalausu tímum.“

Hér má sjá frekari fréttir um Eimskipafélagið: