Samkeppniseftirlitið hafnaði í dag beiðni Eimskips og TVG Zimsen um aðgang að þeim upplýsingum sem lágu að baki húsleitarheimild eftirlitsins. Fram kemur í bréfi Samkeppniseftirlitsins að þegar rannsóknarhagsmunir leyfa muni eftirlitið láta félögunum í té hluta gagnanna. Eimskip óskaði eftir aðgangi að gögnunum í gær .

Fram kemur í tilkynningu frá Eimskipi að félagið muni í framhaldinu meta stöðu sína í ljósi þessarar ákvörðunar.

Samkeppniseftirlitið gerði á þriðjudag húsleit hjá Eimskipi og Samskipum og félögum þeirra vegna meintra brota á samkeppnislögum í samræmi við 10. og 11. grein samkeppnislaga sem m.a. kveða á um verðsamráð. Húsleitin stóð yfir allan daginn og lagt hald á bæði gögn á rafrænu formi og pappír.

Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta frá Samkeppniseftirlitinu.

Fjallað er um húsleitina í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .