Eimskip hefur ákveðið að falla frá máli sínu gegn Samkeppniseftirlitinu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins. Ku félagið hafa greint frá þessari ákvörðun sinni við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í nóvember á síðasta ári, ákvað stjórn Eimskips að höfða almennt einkamál gegn Samkeppniseftirlitinu þar sem þess verður krafist að rannsókn stofnunarinnar, sem staðið hefur yfir í um tíu ár, verði dæmd ólögmæt og henni hætt.

Umrædd rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að rannsóknin hafi verið hafin í kjölfar ábendinga frá bæði viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa.

„Samkeppniseftirlitið hefur haft möguleg brot fyrirtækjanna til samfelldrar rannsóknar og er hún vel á veg komin. Meðal annars hefur Samkeppniseftirlitið gefið fyrirtækjunum kost á að tjá sig um frummat eftirlitsins, en eftirlitið gætir andmælaréttar fyrirtækja í málum af þessu tagi með því að gefa út svokallað andmælaskjal," segir í tilkynningunni.

Í niðurlagi fréttatilkynningar Samkeppniseftirlitsins segir að málið sæti forgangi hjá eftirlitinu. Umfang rannsóknarinnar sé, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi.