Eimskip hefur gengið frá kaupum á þremur frysti- og kæliskipum sem byggð voru í Árósum í Danmörku. Eimskip hefur verið með skipin á leigu síðan árið 2005.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir jafnframt að skipin séu mikilvægur hlekkur í frysti- og kæliflutningum Eimskips og þau henti vel fyrir flutninga á frystum sjávarafurðum á Norður Atlantshafi.

Eimskip tók við rekstri skipanna í lok febrúar, en skipin ganga undir heitinu Íssysturnar, þar sem um systurskip er að ræða, sem bera nöfnin Ice Star, Ice Crystal og Ice Bird. Skipin hafa aðallega verið gerð út frá Noregi og verið í flutningum þaðan inn á Eystrasalt og Rússland, en þau hafa einnig þjónað flutningi á frystum fiskafurðum frá Íslandi, Færeyjum og Nýfundnalandi eða á aðal markaðsvæði Eimskips.

,,Með þessari fjárfestingu er Eimskip að efla frekar stoðir og rekstraröryggi siglingakerfisins á Norður Atlantshafi og sérstaklega í þeirri þjónustu sem skipin hafa  verið í við Noreg,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni.

Skipin eru hvert um sig 3.625 tonn að stærð, 93 metrar á lengd og 16 metrar á breidd. Þau eru útbúin sem frysti- og kæliskip, eru hliðarlestuð sem flýtir hleðslu þeirra í höfnum og tryggir betri vörumeðferð, útbúin krönum og með þrjú lestunardekk, lyftur og lyftara.

Eimskip er með 18 skip í rekstri og eru nú 12 þeirra í eigu félagsins, eftir þessa fjárfestingu.