*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 18. apríl 2021 18:02

Eimskip gengið vel að útvega gáma

Forstjóri Eimskips segir vel hafa gengið að útvega viðskiptavinum gáma, en þeir fari þó ekki varhluta af hækkandi kostnaði.

Andrea Sigurðardóttir
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Aðsend mynd

Kostnaður við sjófrakt hefur hækkað skarpt á heimsvísu. Eftirspurn hefur reynst mun meiri en óttast var í upphafi faraldurs, þegar verulega var dregið úr afkastagetu flutningskerfisins. Þá hefur lengri hringferðatími gáma leitt til gámaskorts.

Viðskiptablaðið ræddi þróun mála við Vilhelm Má Þorsteinsson, forstjóra Eimskips. Hann segir vel hafa gengið hjá félaginu þrátt fyrir krefjandi aðstæður.

„Flutningar til og frá okkar megin heimamörkuðum, Íslandi og frá Færeyjum, hafa gengið vel. Maersk, stærsta skipafélags í heimi, styður vel við okkur hvað frystigáma varðar. Okkur hefur því gengið vel að útvega gáma fyrir útflytjendur hér á landi og í Færeyjum, en þeir fara auðvitað ekki varhluta af mikilli hækkun flutningskostnaðar á alþjóðamörkuðum," segir hann.

Stöðugleika spáð á síðari hluta árs

Spurður um hvort útlit sé fyrir að ástandið verði viðvarandi segir Vilhelm engan vita nákvæmlega hver þróunin verður, en blikur séu á lofti.

„Sérfræðingar innan stærstu skipafélaga heims spá því að áhrifin muni vara inn í þriðja ársfjórðung. Með því er þó ekki átt við að áhrifin gangi til baka, heldur að stöðugleiki náist um það leyti. Einhvers staðar liggja þolmörkin og ef framhald verður á mun eftirspurn eftir flutningum á einhverjum tímapunkti dragast saman."

Skortur á skipum hefur leitt til þess að pantanir nýsmíðaðra gámaskipa hafa aukist mjög. Vilhelm bendir á að nýjustu tölur sýni pantanir að ígildi 1,4 milljóna gámaeininga frá áramótum, en pantaðar gámaeiningar eru þegar orðnar fleiri það sem af er ári en þær hafa verið síðustu sex heilu árin.

„Þessi skip munu þó ekki koma inn á markaðinn fyrr en eftir tvö til fjögur ár. Það er hætt við því að of mikið verði smíðað, sem leiðir þá til þess að verð lækki á næstu árum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér