Stjórn Hf. Eimskipafélags Íslands, hefur samþykkt að gera formlegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Versacold Income Fund í Kanada. Tilboðið hljóðar upp á 12,25 Kanadadollara á hlut. Versacold Income Fund er skráð í Kauphöllinni í Toronto í Kanada (TSX). Auðkenni félagsins er ICE.UN. Heildarkostnaður vegna yfirtökunnar nemur 1.180 milljón Kanadadollara eða sem nemur um 67 milljörðum króna. Eimskip hefur nú þegar tryggt sér um 25,3 % hlutafjár segir í frétt félagsins.

Versacold Income Fund hefur samþykkt að mæla með yfirtökutilboðinu. Gert er ráð fyrir að hluthöfum félagsins verði sent formlegt yfirtökutilboð fyrir 12. júní 2007.

Stjórn Versacold Income Fund telur, eftir að niðurstöður óháðrar nefndar liggja fyrir, að tilboð Eimskips sé sanngjarnt og hagkvæmast sé fyrir hluthafa að taka tilboðinu. Fjárhagslegir ráðgjafar Versacold Income Fund, UBS Investment Bank, hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé fyrir hluthafa að samþykkja tilboðið.

Yfirtökutilboðið verður gert í nafni nýstofnaðs dótturfélags Eimskips, Eimskip Holding Inc.
Tilboðið er að fullu fjármagnað af hálfu Eimskips, Royal Bank of Canada Capital Markets og KingSett. Royal Bank of Canada hefur veitt Eimskip ráðgjöf vegna tilboðsins. KingSett voru jafnframt samstarfsaðilar Eimskips í kaupunum á frystigeymslufyrirtækinu Atlas í Kanada í nóvember 2006.

Ef hluthafar Versacold taka tilboði Eimskips verður Eimskip stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heimi með um 180 kæli- og frystigeymslur í fimm heimsálfum. Eimskip hefur að undanförnu byggt upp öflugt net frysti- og kæligeymslna og ræður fyrirtækið einnig yfir öflugu flutninganeti sem styður við geymslugetu félagsins.

Tilboðið verður í gildi í a.m.k. 35 daga og er meðal annars háð því að eigendur 66,67% heildarhlutafjár samþykki tilboðið. Að auki er tilboðið háð almennum skilyrðum og leyfum frá opinberum eftirlitsstofnunum.

Ef yfirtakan gengur ekki eftir hefur Versacold skuldbundið sig til þess greiða Eimskip 20 milljónir Kanadadollara eða sem nemur rúmlega einum milljarði króna.

Versacold rekur 72 frysti- og kæligeymslur í Norður Ameríku, Suður Ameríku og Eyjaálfu. Versacold er þriðja stærsta kæligeymslu fyrirtæki Kanada og Norður Ameríku. Að auki er Versacold annað stærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki Ástralíu og Argentínu og það þriðja stærsta á Nýja Sjálandi. Staðsetning frysti- og kæligeymslna Versacold styður við og þéttir öflugt net geymslna í eigu Eimskips um allan heim.

Starfsemi Eimskips mun verða á öllum helstu markaðssvæðum heimsins og er félagið vel staðsett til að taka þátt í þeim vexti sem spáð er í geymslu matvæla á næstu árum.

Velta Versacold á síðasta ári var 693 milljónir Kanadadollara eða um 40 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var um 100 milljónir Kanadadollara eða um 6 milljarðar króna. Félagið hefur vaxið mikið á síðustu árum bæði með yfirtökum og innri vexti. Stjórnendateymi Versacold er öflugt og reynslumikið og kemur til með að vinna náið með nýjum eigendum að frekari vexti félagsins. Versacold var stofnað fyrir um 60 árum og starfsfólk félagsins er um 4.500.

Gangi þessi kaup eftir eykst velta Eimskips um 40 milljarða króna og verður um 150 milljarðar króna á ársgrundvelli á næsta ári. Velta Eimskips á yfirstandandi ári er áætluð um 100 milljarðar króna.

Á síðasta ári keypti Eimskip Atlas, annað stærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki Norður Ameríku en starfsemi þess félags svipar mjög til starfsemi Versacold. Mikil tækifæri felast í því að reka þessi tvö fyrirtæki samhliða bæði hvað varðar landfræðilega staðsetningu sem og viðskiptamódel félaganna.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips um kaupin: ?Ég sé mörg tækifæri í því að samnýta öflugt frysti- og kæligeymslunet en ef af kaupunum verður ræður Eimskip yfir rúmlega 180 frystigeymslum um allan heim. Við sjáum einnig mikil tækifæri í öflugum viðskiptavinahópi Versacold en viðskiptavinir félagsins eru hátt í 4.000. Þessi yfirtaka sýnir glögglega hvert Eimskip stefnir en við gerum ráð fyrir að á næstu árum verði frysti- og kæligeymslurekstur megin stoðin í rekstri okkar ásamt skipa- og flutningarekstri. Við höfum mikla trú á stjórnendum Versacold og starfsemi félagsins sem þeir hafa byggt upp á svo árangursríkan hátt. Tilboðið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur og eykur það vonir okkar um að þessi yfirtaka verði að veruleika?