Stjórn Eimskips leggur til að greiddur verði út arður sem nemur 20% af hagnaði félagsins í fyrra. Lagt er til að arðgreiðslan nemi 2,1 krónu á hlut. Eimskip hagnaðist um 12,7 milljónir evra í fyrra, jafnvirði rétt rúmra tveggja milljarða króna og nemur fimmtungur af því tæpum 404,7 milljónum króna.

Í tillögum stjórnar Eimskips fyrir aðalfund félagsins 3 apríl næstkomandi segir að viðmiðunardagsetning arðgreiðslu verði við lok viðskipta á aðalfundardegi og arðleysisdagur1 því 4. apríl 2013 og arðsréttardagur 28. apríl næstkomandi. Lagt er til að útborgunardagur3 verði þann 26. apríl 2013.

Bandaríska félagið Yucaipa American Alliance Fund II LP er stærsti hluthafi Eimskips með 15% hlut og fær í samræmi við eignarhlut sinn 64 milljónir króna í arð. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er annar stærsti hluthafi Eimskips með 14,57% hlut og fær rúma 61 milljón í arð. Þriðji hluthafinn er svo gamli Landsbankinn. Hann á 10,4% hlut og fær í samræmi við það tæpar 44 milljónir króna.

Eina félagið sem er í eigu einstaklings á lista Eimskips yfir 20 stærstu hluthafana er félagið Arkur ehf . Það er í eigu Steinunnar Jónsdóttur fjárfestis og er skráð fyrir tveimur milljónum bréfa í Eimskipi. Samkvæmt því nemur arðgreiðsla til félags Steinunnar 4,2 milljónum króna.