Stjórn Eimskips leggur til við aðalfund félagsins að félagið greiði hluthöfum út 2,1 milljarða króna í formi arðs og lækkun hlutafjár. Um 447 milljóna arðgreiðslu verið greiddar í arð og hlutafé félagsins verði lækkað með greiðslu 1,68 milljarða króna til hluthafa séu lagaleg skilyrði um það uppfyllt.

Hagnaður Eimskips á síðasta ári nam 4,5 milljónum evra, um 690 milljónum króna, og ríflega fjórfaldaðist frá fyrra ári. Í rekstrarspá félagsins fyrir árið 2021 er búist við 68 til 77 milljóna evra EBITDA rekstrarhagnaði miðað við 62 milljónir evra á síðasta ári.

Í greinargerð stjórnar segir að við uppgjör þriðja ársfjórðungs 2019 í lok nóvember hafi framtíðar fjármagnsskipan félagsins og þriggja ára fjárfestingaráætlun verið kynnt. Þar kom fram að markmið félagsins sé að viðhalda eiginfjárhlutfalli nálægt 40% og hóflegu skuldsetningarhlutfalli sem væri 2-3 sinnum nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA.

Eiginfjárhlutfall Eimskips var 43% í árslok 2020. Eigið fé félagsins nam tæplega 231 milljón evra, eða um 35 milljörðum króna en eignir námu 536 milljónum evra, sem eru um 82 milljarðar króna. Félagið er sem stendur metið á um 53 milljarða króna eftir að hafa hækkað um 11% frá áramótum.

Í greinargerðinni segir enn fremur að enginn arður hafi verið greiddur út til hluthafa árið 2020 vegna áhrifa COVID-19 faraldursins og þá hafi arðgreiðslur til hluthafa hafa verið tiltölulega lágar undanfarin ár. „Sjóðsstreymi frá rekstri hefur verið sterkt og gert er ráð fyrir að það haldi áfram árið 2021. Ný þriggja ára fjárfestingaráætlun gerir ekki ráð fyrir verulegum fjárfestingum og með þessari tillögu nálgast félagið frekar markmið sitt um að viðhalda eiginfjárhlutfalli nálægt 40% en það myndi lækka um 1,7 til 2,0% með þessari breytingu," segir í greinargerðinni.

Þá er bent á að stjórn Eimskips hafi lagt fram þessa tillögu fyrir aðalfundar árið 2020 en dregið til baka þann 17. mars 2020 í vegna óvissu í efnahagsumhverfi í tengslum við COVID-19 „Var hún því ekki lögð fram til afgreiðslu aðalfundar 2020, en tiltekið að hún yrði lögð fram á hluthafafundi síðar, þegar sú óvissa sem þá var uppi yrði afstaðin," segir í greinargerðinni.

Samherji Holding er stærsti hluthafi Eimskips með 27,4% hlut og þá eiga lífeyrissjóðir samanlagt um helmingshlut í félaginu en þar af eru Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna stærstu hluthafarnir með ríflega 14% hlut hvort um sig.