Samkeppniseftirlitið og Eimskip hafa náð sátt vegna samráðsbrota félagsins á árunum 2008-2013. Samkvæmt sáttinni viðurkennir Eimskip alvarleg brot á samkeppnislögum, skuldbindur sig til að tryggja að brot endurtaki sig ekki og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt í ríkissjóð. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var það metið Eimskipum til lækkunar að hafa viðurkennt brot og að ætla að grípa til aðgerða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Tímabilið sem var til rannsóknar spannar árin 2008 til 2013. Samkvæmt sáttinni viðurkennir Eimskip að hafa viðhaft samráð við Samskip um skiptingu á mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum og að hafa viðhaft samráð um álagningu gjalda og aflsáttarkjör í flutningaþjónustu. Í báðum tilfellum dró úr samráðinu á árinu 2013.

Enn fremur viðurkennir Eimskip að hafa viðhaft samráð við Samskip um sjóflutninga milli Íslands og Norður-Ameríku og Íslands og Evrópu. Enn fremur samráð við Samskip um landflutningaþjónustu og skiptingu á mörkuðum á tilteknum flutningaleiðum. Rétt er að geta þess að þótt Eimskip hafi viðurkennt brot þá er þáttur Samskipa enn til rannsóknar.

„Eimskip skuldbindur sig til þess að yfirfara alla samninga sína við önnur flutningafyrirtæki með tilliti til samkeppnislaga. Jafnframt skuldbindur Eimskip sig til þess að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip. Í þessu felst einnig að Eimskip skuldbindur sig til þess að eiga ekki í samstarfi við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip á einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst árið 2013 með húsleit í september 2013 og ráðist var í aðra slíka í júní 2014. Umfang rannsóknarinnar, er að sögn eftirlitsins, sú umfangsmesta í sögu þess og hefur hún tekið tíma af þeim sökum.

Fréttin verður uppfærð.