Rífandi viðskipti voru með bréf Eimskipa í dag, sem hækkuðu um 4,6% í viðskiptum dagsins, sem 1.844 milljónum króna. Bréfin hafa þó verið á svipuðu róli það sem af er þessum mánuði, en frá áramótum hafa þau tæplega tvöfaldast, og frá því faraldurinn hófst hafa þau meira en þrefaldast.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam rétt tæplega 5 milljörðum í dag, en litlar breytingar voru á gangvirði annarra félaga.

Mest hækkuðu bréf Icelandair um 1,79% í litlum 54 milljóna króna viðskiptum, og en bréf Eikar lækkuðu mest, um 1,69%, í örlitlum 756 þúsund króna viðskiptum.

Að Eimskipi undanskildu var mest velta með bréf Arion banka, 616 milljónir króna, sem enduðu með 0,52% lækkun í viðskiptum dagsins.

Brim skilaði fjórðungsuppgjöri eftir lokun markaða nú fyrir stuttu, en félagið hagnaðist um tæpa 3 milljarða á fjórðungnum sem er tæp fjórðungsaukning milli ára.