Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um 3,8% í fyrstu viðskiptum dagsins þrátt fyrir að tilkynnt var um 1,5 milljarða króna sekt eftir lokun markaða á miðvikudaginn síðasta.

Eimskip viðurkenndi alvarleg brot á samkeppnislögum vegna samráðs við Samskip á árunum 2008-2013. Félagið skuldbindur sig einnig til að tryggja að brot endurtaki sig ekki og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt í ríkissjóð, sem er jafnframt hæsta sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki hérlendis vegna samkeppnislagabrots.

Gengi Eimskips stendur í 298 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð, samanborið við 293 krónur þegar félagið tilkynnti fyrst um sáttaviðræður við Samkeppniseftirlitið þann 9. júní síðastliðinn. Hlutabréfaverðið féll í kjölfarið en var komið í 287 krónur á hlut við lokun markaða á miðvikudaginn síðasta.

Stuttu eftir að tilkynnt var um sektina, sendi Eimskip frá sér afkomutilkynningu þar sem fram kom að áætlaður EBIT hagnaður félagsins á öðrum fjórðungi verði um 14-17 milljónir evra, eða á bilinu 2,1-2,5 milljarðar króna. Það er um 9-12 milljónum evra, eða 1,3-1,8 milljörðum króna, hærra en á öðrum ársfjórðungi 2020.

Aðlöguð EBITDA afkomuspá Eimskips, án áhrifa sektarinnar, fyrir árið 2021 er nú á bilinu 77-86 milljónir evra samanborið við 68-77 milljónir evra sem upphaflega var birt í desember 2020.