*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 11. mars 2020 09:39

Eimskip hækkar um 10%

Hlutabréfa- og skuldabréfafjárfestar hafa tekið vel í vaxtalækkun Seðlabankans það sem af er morgni.

Ritstjórn

Gengi bréfa Eimskips hefur hækkað um 10% í 481 milljóna viðskiptum í morgun en hækkunin kemur í kjölfar þess að í gærkvöldi tilkynnti Samherji Holdings um að hlutur félagsins í Eimskip væri kominn yfir 30% og því hafði yfirtökuskylda myndast. 

Fyrir utan bréf Eimskips hafa töluverðar hækkanir átt sér stað á hlutabréfamarkaði í morgun og svo virðist sem fjárfestar hafi tekið vel í stýrivaxtalækkun seðlabankans í morgun. 

Gengi bréfa Marel hefur hækkað um 5,94% í 97 milljóna viðskiptum, bréf Eikar um 5% í 53 milljóna viðskiptum en alls hefur gegni bréfa 12 félaga hækkað um meira en 2% það sem af er degi. 

Þá hefur úrvalsvísitalan hækkað um 4,3% í rúmlega 1,5 milljarðs viðskiptum.

Krafan lækkar

Skuldabréfafjárfestar hafa einnig tekið vel í vaxtalækkunina en ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur lækkað um 8-19 punkta það sem af er morgni í tæplega 2,2 milljarða viðskiptum þar sem breytingin hefur verið mest á styttri bréfum.