Úrvalsvísitalan hækkaði um rúmt eitt prósent í þriggja milljarða króna veltu hlutabréfamarkaðar Kauphallarinnar í dag. Eimskip hækkaði mest allra félaga eða um 3,2% í 348 milljóna króna viðskiptum. Félagið hefur hækkað um 13% frá áramótum og um rúmlega 135% frá því í byrjun maí síðastliðnum.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu næst mest allra félaga eða um 2,1% í 648 milljóna krónu veltu. Bréf Arion stóðu í 121 krónu á hlut við lokun Kauphallarinnar en gengi bankans hefur hækkað um 27% í ár. Næst mesta veltan var með hlutabréf Marel sem hækkaði um 1,2% í 609 milljóna króna viðskiptum.

Icelandair lækkaði um 2,7% í 59 milljóna króna viðskiptum í dag. Gengi flugfélagsins hafði hækkað um rúmlega 12% á síðustu tveimur dögum en stjórnvöld sendu frá sér tilkynningu á þriðjudaginn um að vottorð um bólusetningu gegn Covid-19 verði tekin gild á landamærum.