Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,8% í 3,4 milljarða viðskiptum í Kauphöllinni í dag en tíu félög voru græn og sjö rauð á aðalmarkaðnum. Mesta breytingin var á gengi Eimskips sem hækkaði um 3,6% í 532 milljóna veltu og er aftur komið upp í 462 krónur á hlut.

Hlutabréfaverð Sýnar og Origo héldu áfram að hækka. Gengi Sýnar hækkaði um 2,9% í dag, þó í aðeins 30 milljóna veltu, en fjarskiptafélagið hefur nú hækkað um nærri þriðjung á rúmum mánuði. Origo náði nýjum hæðum í 73 krónum á hlut en hugbúnaðarfyrirtækið hefur hækkað um 19% á einum mánuði og alls um 83% í ár. Festi náði einnig methæðum í 226 krónum á hlut eftir 2,7% hækkun í dag.

Gengi Símans lækkaði mest meðal Kauphallarfélaga í dag eða um 1,6% og stendur nú í 12,1 krónu. Bankarnir þrír lækkuðu allir, þar af féll gengi Kviku mest eða um 1,4%. Lækkun úrvalsvísitölunnar skýrist einnig að stórum hluta af 1,1% lækkun á gengi Marels.

Þrjár flöggunartilkynningar voru birtar í dag, þar af voru tvær vegna viðskipta Stapa lífeyrissjóðs. Stapi seldi í Högum fyrir 95 milljónir króna í dag og seldi í Eimskipi fyrir tæplega 68 milljónir. Eignarhlutur Stapa í félögunum tveimur fór undir 5% markið eftir þessi viðskipti. Þá keypti LSR í Festi fyrir tæplega 44 milljónir króna á föstudaginn síðasta, ef miðað er við dagslokagengi á föstudaginn og á nú 10,0% hlut í smásölufyrirtækinu.

131% hækkun frá fyrra ári

Heildarviðskipti með hlutabréf námu 113,7 milljörðum í síðasta mánuði, eða um 5,,4 milljarða að meðaltali á hverjum viðskiptadegi. Það er um 6% hækkun frá septembermánuði en 131% hækkun frá október 2020. Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti Nasdaq á Íslandi.

Flest viðskipti í síðasta mánuði voru með bréf Icelandair eða alls 2.244 talsins. Þar á eftir fylgdi Íslandsbanki með 1.479 viðskipti, Marel með 1.149, Arion með 1.092 viðskipti.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeild viðskipta eða um 24,1%.  Íslandsbanki var með um 17,7% viðskipta og þar á eftir kom ACRO verðbréf með 15,9%.