Úrvalsvísitalan lækkaði um rúmlega hálft prósent í 3,4 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Yfir þriðjungur veltunnar, eða um 1,3 milljarðar króna, var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,4%. Bankinn hækkaði hins vegar um 1,6% í gær í kjölfar afkomutilkynningar fyrir fyrsta ársfjórðung .

Eimskip hækkaði mest allra félaga í dag eða um 4,3% í 478 milljóna króna viðskiptum. Félagið birti í gærkvöldi uppfærðar rekstrartölur úr stjórnendauppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung þar sem EBITDA hagnaður var allt að tveimur milljónum evra hærri en en í fyrri tilkynningu félagsins fyrir rúmri viku.

VÍS hækkaði næst mest eða um 1,5% í dag en félagið hækkaði afkomuspá um rúmlega 46% fyrir árið 2021 . Félagið hagnaðist um rúmlega 1,9 milljarða króna, samkvæmt drögum að uppgjöri.

Icelandair lækkaði mest allra félaga eða um 1,8% og stóð gengi flugfélagsins í 1,4 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Marel lækkaði einnig um 0,9% í 150 milljóna króna viðskiptum.