Hagnaður Eimskips eftir skatta í fyrra nam 12,7 milljónum evra (andvirði um 2,1 milljarðs króna), en var 13,1 milljón evra árið 2011. Hreinn fjármagnskostnaður lækkar milli ára og er það lakari rekstrarhagnaður sem skýrir lækkunina milli ára. Rekstrarhagnaður Eimskips árið 2011 nam 19,9 milljónum evra en var 13,7 milljónir evra í fyrra. Lægri rekstrarhagnaður kemur svo einfaldlega til vegna þess að rekstrarkostnaður hækkar meira á árinu en tekjur.

Eignir Eimskips jukust töluvert á árinu og námu í árslok 313,3 milljónum evra. Skuldir aukast úr 106,7 milljónum í 113,7 milljónir, en aukningin er nær öll í viðskiptaskuldum. Eigið fé nam 199,6 milljónum evra um síðustu áramót en var 176,5 milljónir evra ári áður. Eiginfjárhlutfall var því 63,7% í árslok 2012.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að afkoma ársins 2012 sé í samræmi við væntingar. Sé tekið tillit til einskiptisliða hafi EBITDA numið um 40,8 milljónum evra.

Gylfi segir að sé tekið tillit til kostnaðar við skráningu félagsins á markað og kaupréttarsamninga sem fallið var frá á fjórðungnum hafi rekstrarhagnaður fyrir afskriftir numið 10,2 milljónum evra, sem sé 18,7% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Flutningsmagn í áætlanaflutningum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 3,4% frá fyrra ári. Magn í frystiflutningsmiðlun dróst hins hvegar saman um 0,6% frá fyrra ári eftir nokkurn vöxt á árunum 2010 og 2011. Gylfi segir Horfur í flutningum á Norður-Atlantshafi jákvæðar á komandi mánuðum en töluverður vöxtur hafi verið í flutningum frá Noregi og Færeyjum og í flutningum á milli Evrópu og Norður-Ameríku.