Eimskip hagnaðist um 98 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er tíu sinnum minna en á sama tíma í fyrra en þá nam hagnaðurinn 928 milljónum króna. Munurinn skýrist af því að á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs innheimti Eimskip útistandandi kröfur upp á einn milljarð króna. Hún hafði áður verið færð niður að fullu í bókum fyrirtækisins.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að rekstrarhagnaður á fjórðungnum hafi numið 1,1 milljarði króna samanborið við 2,1 milljarði á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

Heildarvelta samstæðu Eimskips á fyrsta ársfjórðungi ársins 15,3 milljörðum króna samanborið við 14,3 milljarða í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að heildariengir félagsins hafi numið 48,1 milljarði króna í lok mars og var eiginfjárhlutfallið 62,1%. Vaxtaberandi skuldir námu 10,5 milljörðum króna.

Haft er eftir forstjóranum Gylfa Sigfússyni í tilkynningu að afkoman af reglulegri starfsemi hafi verið í takti við væntingar. Hægur bati sé á flutningum til og frá landinu. Á móti komi að kostnaður hafi hækkað á milli ára.

Vinna við mögulega skráningu félagsins á Kauphöll er í fullum gangi en stefnt er að henni í lok árs.