Eimskip skilaði 20,7 milljóna evra hagnaði á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur 3,1 milljarði króna. Það er þrefalt meira en á sama tímabili á síðasta ári þegar hagnaðurinn nam 6,2 milljónum evra. Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist flutningafélagið 26,7 milljónir evra, eða um 4 milljarða króna. Þetta kemur fram í uppgjöri sem Eimskip birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Tekjur Eimskips jukust um 39% á milli ára og námu 237 milljónum evra, eða um 25,7 milljörðum króna. Bent er á að umtalsverðar verðhækkanir frá flutningsbirgjum hafi í för með sér samsvarandi aukningu í sölutekjum. Kostnaður jókst einnig um 34% frá fyrra ári og nam nærri 200 milljónum evra sem félagið rekur til verulegrar aukningar í kostnaði vegna kaupa á þjónustu flutningsbirgja fyrir hönd viðskiptavina.

Í tilkynningu félagsins segir að góður árangur hafi verið í bæði áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun, m.a. vegna hagstæðra markaðstæðna á alþjóðavísu. Þá hafi áfram gengið vel í gámasiglingum sem rekja má til mikils magns, sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og í flutningum yfir Atlantshafið.

„Í alþjóðaflutningsmiðluninni náðum við frábærum árangri á markaði sem einkennist af mjög háum alþjóða flutningsverðum ásamt skorðum á afkastagetu á alþjóðaflutningsmörkuðum. Þá er ég mjög ánægður að sjá metafkomu í fjórðungnum af starfseminni okkar í Asíu,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips.

Tekjur Eimskips eftir fjórðungum frá ársbyrjun 2019. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Eimskips.

Yfirlýsing Vilhelms Más Þorsteinssonar í heild sinni:

„Ég er mjög ánægður með áframhaldandi sterkan rekstrarárangur á þriðja ársfjórðungi. Niðurstöðurnar einkennast af góðu framlagi frá bæði áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun sem eru helstu drifkraftar bættrar afkomu. Þær óvenjulegu markaðsaðstæður sem hafa verið á alþjóðaflutningamörkuðum halda áfram að vera krefjandi og sem fyrr hafa þessar aðstæður bæði áhrif á tekjur og kostnað. Við teljum okkur þó vera farin að sjá fyrstu merki um stöðugleika í alþjóðlegum verðvísitölum.

EBITDA á fjórðungnum var sterk og nam 36,8 milljónum evra og hefur hagnaður aldrei verið meiri á einum fjórðungi en hann nam 20,7 milljónum evra. Við áttum annan góðan ársfjórðung í gámasiglingakerfinu sem rekja má til góðrar magnþróunar, sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og Trans-Atlantic flutningum, ásamt virkri tekjustýringu. Frystiflutningar í Noregi skiluðu einnig góðum árangri vegna góðrar nýtingar og betra jafnvægis í kerfinu. Í alþjóðaflutningsmiðluninni náðum við frábærum árangri á markaði sem einkennist af mjög háum alþjóða flutningsverðum ásamt skorðum á afkastagetu á alþjóðaflutningsmörkuðum. Þá er ég mjög ánægður að sjá metafkomu í fjórðungnum af starfseminni okkar í Asíu.

Magn í Trans-Atlantic flutningum hefur farið stöðugt vaxandi frá árinu 2017 þegar vikulegar siglingar hófust. Frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs höfum við verið með fullnýtt skip á vesturleiðinni til Norður Ameríku og jókst magnið á þriðja ársfjórðungi um 50% samanborið við sama fjórðung síðasta árs. Magnið í Trans-Atlantic gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum uppá vikulega þjónustu milli Íslands og Norður Ameríku.

Í krefjandi alþjóðlegu umhverfi hefur okkur tekist að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu í áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun þar sem staða okkar sem leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með öflugt alþjóðlegt skrifstofunet kemur sér vel. Við byggjum á sterkum viðskiptasamböndum og sérfræðiþekkingu starfsmanna okkar og erum vel staðsett á markaðnum með áherslu okkar á flutning á frystum og kældum vörum.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á alþjóðlegum flutningamörkuðum þá er útlitið fyrir fjórða ársfjórðung gott og af þeim sökum höfum við hækkað afkomuspá fyrir árið í heild.“