Hagnaður Eimskips nam 2,46 milljónum evra, eða 403 milljónum króna, á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2,75 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Það var því viðsnúningur frá fyrsta ársfjórðungi ársins þegar félagið tapaði 4,95 milljónum evra en helst munaði um að rekstrarkostnaður lækkaði um 7,8 milljónir evra milli fyrsta og annars ársfjórðungs.

Tekjur félagsins námu 160,6 milljónum evra og lækkuðu um 6,9 milljónir evra eða 4,1% frá sama ársfjórðungi á síðasta ári. Eimskip rekur lækkun tekna til 5,3% samdráttar í magni í siglingakerfinu og 4,0 milljóna evra lægri tekna í starfsemi á Íslandi vegna veikingar krónunnar. Magn í flutningsmiðlun minnkaði um 5,3% en hins vegar jukust tekjur um 3,5% vegna hærra hlutfalls frystiflutninga.

Kostnaður nam 144,6 milljónum evra sem er lækkun um 7,1 milljón evra milli tímabila „sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum sem eru að skila sér“, segir í tilkynningu félagsins. Launakostnaður lækkaði um 4,0 milljónir evra eða 11,9%, þar af 2,0 milljónir evra vegna veikingar krónunnar. Uppsagnarkostnaður að fjárhæð einni milljón evra meðtalinn í launum. Starfsmönnum félagsins fækkaði um 9,7% eða rúmlega 170 á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt fjárfestakynningu . Kostnaðarlækkun í siglingakerfi, stjórnunarkostnaði og olíuverði höfðu einnig áhrif til lækkunar á kostnað.

Neikvæðra áhrifa af COVID-19 gætti einna helst í ferðaþjónustutengdu dótturfélögunum Sæferðum og Gáru.

Eignir Eimskips námu 540,6 milljónum evra í lok júlí og hækkuðu um rúmlega 16 milljónir evra frá áramótum. Skuldir voru 318 milljónir evra, eigið fé 222 milljónir evra og eiginfjárhlutfall því 41%. Handbært fé frá rekstri jókst um 2,1 milljón evra og nam 22,0 milljónum evra í lok tímabilsins samanborið við 19,9 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.

Innborganir að fjárhæð 14 milljónir evra voru greiddar inná veltufjármögnunarlínu á fjórðungnum. Einnig var ný 10 milljóna evra veltufjármögnunarlína var tryggð á fjórðungnum til að styrkja enn frekar lausafjárstöðu.

Eimskip fékk nýja skip sitt Dettifoss afhent og samstarfið við Royal Arctic Line hófst formlega á öðrum ársfjórðungi.

„Ég er nokkuð ánægður með niðurstöður annars ársfjórðungs sem eru ofar væntingum sem stjórnendur höfðu í upphafi fjórðungsins, sérstaklega ef litið er til stöðunnar vegna COVID-19. Bættan árangur má meðal annars sjá í aðlagaðri EBITDU fjórðungsins sem jókst um 7,6% milli ára,“ er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Við erum farin að sjá jákvæð áhrif hagræðingaraðgerða síðustu sex til tólf mánaða þar sem við höfum t.d. fækkað stöðugildum um 10% frá árslokum 2019, aðlagað gáma- og frystiflutningakerfin okkar og fækkað skrifstofum. Það hefur reynst mikilvægur þáttur til að vega á móti neikvæðri þróun í flutningsmagni og áhrifum COVID-19 og við erum ákveðin í að tryggja að þessar rekstrarumbætur haldist til framtíðar.“