Tekjur Eimskips á öðrum ársfjórðung námu 283,1 milljón evra sem er 34,1% aukning samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 44,8 milljónum evra samanborið við 29,7 milljónir evra á sama tíma í fyrra samkvæmt uppgjöri annars ársfjórðungs 2022.

Hagnaður annars ársfjórðungs nam 24,9 milljónum evra, jafngildir tæpum 3,5 milljörðum króna á gengi dagsins, samanborið við 13,3 milljónum evra á sama tímabili 2021.

Skuldir félagsins námu 393 milljónum evra og var skuldsetningahlutfallið 1,48x sem er undir langtímamarkmiði félagsins sem er um 2-3x. Þá nam bókfært eigin fjár 270 milljónum evra.

Hagnaður Eimskips fyrstu sex mánuði ársins nemur því 35,4 milljónum evra samanborið við 16,2 milljónir á sama tíma í fyrra.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:

„Ég er ánægður með afkomu annars ársfjórðungs þar sem við vorum með góða afkomu hjá helstu viðskiptaeiningum félagsins. Rekstrarumhverfið hefur lengi verið mjög krefjandi og síbreytilegt, sérstaklega frá upphafi Covid. Það hefur ítrekað reynt á aðlögunarhæfni okkar og getu til að bregðast við nýjum aðstæðum. Ég er stoltur af okkar reynslumikla og hæfa hópi starfsfólks um allan heim sem hefur aftur og aftur sýnt fram á þrautseigju og útsjónarsemi í rekstri sem og þjónustu við viðskiptavini okkar.

Bæði tekjur og gjöld hækka umtalsvert á fjórðungnum, aðallega vegna aukins kostnaðar hjá flutningsbirgjum, hækkunar olíuverðs og mikilla umsvifa. Hlutfall tekna sem eiga uppruna sinn utan Íslands heldur áfram að aukast og er nú um 60% af heildartekjum félagsins. Áætlunarsiglingar halda áfram að skila góðri afkomu þar sem okkar öfluga siglingakerfi spilar lykilhlutverk. Innflutningsmagn til Íslands var mjög hátt á fjórðungnum á meðan útflutningsmagn fá Íslandi minnkaði miðað við síðasta ár meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu og minni framleiðslu í laxeldi. Trans-Atlantic þjónustan okkar heldur áfram að styrkjast og er orðin mikilvæg stoð í áætlunarsiglingunum. EBITDA á fjórðungnum nam 44,8 milljónum evra sem er aukning um 51% frá sama ársfjórðungi síðasta árs en rekja má stóran hluta þess til bættrar afkomu af áætlunarsiglingum. Hagnaður nam 24,9 milljónum evra og það er gott að sjá að reksturinn skilar góðu sjóðstreymi frá rekstri  sem nam 31,3 milljónum evra á fjórðungnum.

Flutningsverð á heimsmarkaði hafa farið lækkandi undanfarið en leiguverð skipa í þeim flokki sem Eimskip hefur í sínum rekstri er enn hátt. Horft fram á veginn eru enn þættir sem valda ójafnvægi og stíflum á alþjóðlegum flutningamörkuðum t.d. afkastageta hjá flutningabílum og aukin verðbólga í hagkerfum heimsins sem geta haft áhrif á alþjóðaviðskipti og eftirspurn.

Innflutningsmagn til Íslands er enn mikið og við gerum ráð fyrir að útflutningsmagnið frá Íslandi taki við sér með haustinu. Þá er áframhaldandi gott útlit í Trans-Atlantic flutningum þar sem flutningsgeta er takmarkandi þáttur. Horfur eru því almennt jákvæðar fyrir þriðja ársfjórðung og það sem eftir lifir árs.“

Leiðrétt: Þegar fréttin fór fyrst í loftið kom fram að hagnaður á öðrum fjórðungi hafi numið 5 milljörðum. Hið rétt er að hagnaðurinn nam 3,5 milljörðum.