Rekstrarhagnaður Eimskips nam á fyrri hluta þessa árs um 19 milljónum evra (um 2,9 mö.kr. á núv.gengi), samanborið við 17,9 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip þar sem fjallað er um árshlutauppgjör félagsins. Hagnaður eftir skatta fyrir fyrstu sex mánuði ársins nam 8 milljónum evra (um 1,2 mö.kr.), samanborið við 7,5 milljónir evra í fyrra.

Þar kemur fram að heildarvelta Eimskips var 198,1 milljónir evra fyrstu sex mánuði ársins 2012 samanborið við 186,5 milljónir evra á fyrri hluta ársins 2011. Að teknu tilliti til einskiptisliðar á árinu 2011 að fjárhæð 6,4 milljónir evra jókst veltan um 10% á milli ára.

„Athygli er vakin á því að á fyrri árshelmingi 2011, höfðu einskiptisliðir áhrif á bæði veltu og afkomu,“ segir í tilkynningunni.

„Á því tímabili var krafa að fjárhæð 6,4 milljónir evra innheimt, en hún hafði áður verið að fullu færð niður í bókum félagsins. Auk þess hafði strand Goðafoss neikvæð einskiptisáhrif á afkomu sem nam 0,7 milljónum evra.“

Heildareignir félagsins í lok júní námu 299,8 milljónum evra, vaxtaberandi skuldir námu 61,9 milljón evra og var eiginfjárhlutfallið 61,6%. Handbært fé nam 27,2 milljónum evra í lok júní 2012 og hafði lækkað um 16,3 milljónir evra frá árslokum 2011, einkum vegna fjárfestinga í skipum.

„Afkoman af reglulegri starfsemi fyrstu sex mánuði ársins var umfram væntingar félagsins,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni.

„Nýju siglingaleiðinni á milli Norður-Noregs og Norður-Ameríku hefur verið vel tekið og eykst flutningsmagnið jafnt og þétt á þeirri leið, en almennt var góður gangur í eigin flutningastarfsemi og jókst flutningsmagn í siglingakerfum félagsins á Norður-Atlantshafi um 7,4% fyrstu sex mánuði ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Flutningsmagn í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun félagsins stóð í stað fyrstu sex mánuði ársins samanborið við síðasta ár á meðan magn í alþjóðlegri flutningsmiðlun á þurrvöru jókst verulega á milli ára.“

Eimskip
Eimskip
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)