Hagnaður Eimskips lækkaði úr 7,4 milljónum evra í 1 milljón evra, eða úr einum milljarði króna í 139 milljónir króna.

Bent er á í uppgjörinu að tap af sölu skipa upp á 2,6 milljónir evra og 3,4 milljónir evra eftir að hafa tapað máli fyrir yfirskattanefnd um skattgreiðslur af starfsemi í erlendum dótturfélögum Eimskips. Án þessara áhrifa væri hagnaður félagsins 7 milljónir evra.

EBITDA spá félagsins gerir ráð fyrir 51 til 58 milljóna EBITDA á þessu ári, en sagt er frá því að bilið sé óvenjubreitt vegna óvissu um hvaða áhrif kórónuveiran hafi á afkomu félagsins. Það geti haft áhrif á flutninga og heimshagkerfið.

Þá hefur kórónuveiran valdið því að afhending nýs skips sem er í smíðum í Kína, Dettifoss, seinki. Óvíst sé hvenær sjópróf hefjist vegna útbreiðslu veirunnar. Búist er við að skipið verði afhent á öðrum ársfjórðungi. Þá verði nýr Brúarfoss afhentur á þriðja ársfjórðungi.

Loðnubrestur og minni innflutningur

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir afkomuna litast af því af minni innflutningi til Íslands og loðnubresti. „Árið 2019 einkenndist af minni innflutningi til Íslands sem minnkaði um 10,7%, sem er í takt við minnkun í tölum Hagstofunnar um heildar innflutningsmagn til Íslands. Að auki hafði loðnubrestur og minni veiðar við Ísland á síðasta ársfjórðungi 2019 töluverð áhrif á útflutningsmagn frá Íslandi,“ segir Vilhelm Már.

Félagið hafi gripið til hagræðingaraðgerða. „Ég er ánægður að sjá að áhersla okkar á hin ýmsu hagræðingar og samþættingar verkefni hefur jákvæð áhrif á niðurstöður ársins og mun halda áfram að skila jákvæðum áhrifum á árinu 2020. Þetta er í samræmi við vegferð félagsins um aukna samþættingu og áherslu á kjarnastarfsemi. Starfsemin okkar í Noregi hélt áfram að bæta afkomu sína og Trans-Atlantic þjónustan okkar óx um tveggja stafa tölur á árinu.  Afkoman af flutningsmiðlun jókst milli ára þrátt fyrir minna flutningsmagn,“ segir Vilhelm.

Þá hefur Eimskip hætt við að selja Sæferðir sem auglýst var til sölu í ágúst. Félagið hafi átt í ítarlegum viðræðum við mögulega kaupendur sem ekki hafi gengið eftir.

Tekjur námu 679,6 milljónum evra og lækkuðu um 9,6 milljónir evra eða 1,4% frá árinu 2018. Tekjur lækkuðu meðal annars vegna lægra flutningsmagns í gámasiglingum, sérstaklega í innflutningi til Íslands. Kostnaður nam 630,2 milljónum evra (án áhrifa IFRS 16) sem er lækkun um 9,7 milljónir evra, þar af lækkaði launakostnaður um 5,9 milljónir evra eða 4,3%. EBITDA nam 60,5 milljónum evra eða 49,4 milljónum evra (án áhrifa IFRS 16) samanborið við 49,2 milljónir evra fyrir árið 2018.