Fyrir lá í lok síðasta árs að heildaráhætta Eimskipafélagsins vegna sölu á flugstarfsemi félagsins nam um 900 milljónum dala eða um 82 milljörðum íslenskra króna, miðað við gengi dollarsins nú, og að hætta væri á og raunar útlit fyrir að rekstur XL Leisure færi í þrot, svo og rekstur Air Atlanta, ef ekki kæmi til aukið hlutafé.

Á þessum tíma, þ.e. í lok síðasta árs, hafði Landsbankinn einnig gefið í skyn við stjórnendur Eimskipafélagsins að bankinn myndi ekki framlengja 280 milljóna dala lán XL, sem Eimskipafélagið er í ábyrgð fyrir.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi sem þáverandi forstjóri Eimskipafélagsins, Baldur Guðnason, sendi Magnúsi Þorsteinssyni, þáverandi stjórnarformanni Eimskipafélagsins, og Þór Kristjánssyni varaformanni, sem þá sat í stjórninni fyrir hönd Björgólfs Guðmundssonar, í lok nóvember í fyrra.

Björgólfur og Magnús eru, sem kunnugt er, stærstu hluthafar í Eimskipafélaginu en bæði Magnús og Þór hafa vikið úr stjórn félagsins.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt á erfiðleikum Eimskips í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .