Eimskip hefur boðað hækkun á flutningsgjöldum frá og með næstu mánaðarmótum. Mest er hækkunin á milli Íslands og Norður-Ameríku eða um 10%. Sjóflutningsgjöld milli Íslands og Evrópu hækka um 4,7%, og þjónustugjöld Eimskips á Íslandi hækka um sömu prósentutölu og akstur innanlands hækkar um 3%.

Hækkun þvert á þróun gengis krónu

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Eimskip hafi ekki gefið fullnægjandi útskýringar fyrir hækkununum. "Það sem kemur mest á óvart er mikil hækkun á Ameríkusiglingunum," segir Andrés og bætir við að þetta gangi þvert á það hvernig gengi krónunnar hefur þróast. Félagsmenn hans skilji ekki þessa þróun.

"Verðhækkanir hafa verið frekar tíðar"

Októ Þorgrímsson, framkvæmdastjóri Íslensk-Bandaríska ehf. sem sérhæfir sig í innflutningi bíla, segir að það sé ekki nokkur spurning að slík hækkun muni skila sér út í verðlag. "Verðhækkanir hafa verið frekar tíðar," segir Októ og segir að skoðað verði hvaða möguleikar séu í stöðunni með flutninga fyrirtækisins.

"[E]ru einir í beinum siglingum þangað"

Gunnar Bachman, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, segir að hann undrist að Eimskip þori að hækka verðið með þessum hætti. "Við hættum að sigla til Norður-Ameríku í ársbyrjun þannig að þeir eru einir í beinum siglingum þangað nú. Við munum ekki taka upp beinar siglingar aftur heldur flytjum vörur þangað í gegnum meginland Evrópu," segir Gunnar.

Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri Norður-Atlantshafssviðs Eimskips, hefur sagt í fjölmiðlum að hækkunina megi rekja til aukins kostnaðar í höfnum erlendis, almennra verðhækkana og launaþróunar.

Afkoma Ameríkuleiðarinnar hefur verið óviðunandi

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Bragi Þór að grunnforsendurnar fyrir hækkununum til Evrópu og Norður-Ameríku séu þær sömu en munurinn skýrist af því að afkoma Ameríkuleiðarinnar hefur verið óviðunandi.

"Þrátt fyrir ýmsar hagræðingaraðgerðir er hún ekki í lagi og þetta er niðurstaðan. Eins og staðan er nú er ekki mikill útflutningur héðan til Ameríku. Við erum í auknum mæli að flytja þangað vörur til og frá meginlandi Evrópu og tekjurnar eru að mestu í erlendri mynt."

Ekki vegna minnkandi samkeppni

Aðspurður um hvort hækkunin sé meiri á Ameríkuleiðinni en til Evrópu vegna minnkandi samkeppni, en Atlantsskip hættu í upphafi árs að sigla beint þangað segir Bragi Þór að svo sé ekki.

"Bandaríkin og Kanada eru mjög stór svæði og uppruni vörunnar er mjög víða. Landflutningar í Norður-Ameríku geta verið dýrir þannig að það getur komið upp tilfelli að það sé ódýrara að flytja þaðan vöruna einfaldlega með skipi fyrst til hafna á meginlandi Evrópu og þaðan til Íslands í stað þess að flytja hana landleiðina til brottfararhafna Eimskips í Norður-Ameríku þar sem við flytjum hana beint til Íslands, en þetta er valkostur viðskiptavina. Hækkunin nú er eingöngu rekstrarleg ákvörðun hjá okkur."