*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 11. september 2008 07:30

Eimskip: Hlutur hluthafa þynnist

Björgólfsfeðgar leysa Eimskipafélagið undan ábyrgð gagnvart XL Leisure Group

Ritstjórn

Hlutur hluthafa Eimskipafélagsins mun þynnast ef reynir á ábyrgð þá sem Eimskipafélagið ber gagnvart XL Leisure Group, sem talið er líklegt. Í fyrrinótt var tilkynnt að næststærsti hluthafi og kjölfestufjárfestir Eimskips, Björgólfur Guðmundsson, sé ásamt syni sínum Björgólfi Thor Björgólfssyni, auk ótilgreinds hóps fjárfesta, reiðubúinn til þess að leysa félagið undan 207 milljóna evra lánsfjárábyrgð gagnvart breska ferðaheildsalanum XL Leisure Group komi til þess að ábyrgðin falli á félagið.

Gjalddaga ábyrgðarinnar yrði þá frestað, að því er segir í fréttatilkynningu. „Samkvæmt tilkynningu mun þessi hópur veita Eimskip lán sem fyrirhugað er að víki fyrir kröfum annarra lánadrottna á hendur Eimskip. Ef svo verður er um víkjandi lán að ræða,“ skrifar greiningardeild Glitnis. Við það þynnist hlutur hvers hluthafa skipafélagsins. Spurningar um hvort yfirtökuskylda hafi myndast hjá Eimskipafélaginu hafa vaknað á markaði vegna orðróms um að stærsti hluthafi Eimskipafélagsins, Frontline Holding S.A. (með 33,18% hlut) sem er í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, sé ekki lengur undir hans stjórn heldur Landsbankans.

Talsmaður Fjármálaeftirlitsins segir að málið hafi ekki komið til sérstakrar skoðunar hjá stofnuninni. Magnús Þorsteinsson sagði sig úr stjórn Eimskipafélagsins í lok desember á síðasta ári. Skömmu síðar sagði hann einnig af sér stjórnarformennsku í Icelandic Group.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.