Eimskip Holdings Inc, dótturfélag Hf. Eimskipafélag Íslands, hyggst gera formlegt yfirtökutilboð í allt hlutafé Versacold Income Fund á genginu 12,25 Kanadadollara á hlut. Stjórn Versacold Income Fund hefur samþykkt samhljóða að mæla með yfirtökutilboðinu.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips: ?Tækifærið til að yfirtaka Versacold samræmist mjög vel framtíðarstefnu
félagsins um að byggja upp öflugt net kæli- og frystigeymslna um allan heim. Kæli- og frystigeymslur Versacold styðja vel við alþjóðlegt flutninganet Eimskips og mun sameinað fyrirtæki bjóða upp á öfluga þjónustu í fimm heimsálfum. Við höfum mikla trú á stjórnendum Versacold og starfsemi félagsins sem þeir hafa byggt upp á svo árangursríkan hátt. Tilboðið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur og eykur það vonir okkar um að þessi yfirtaka verði að veruleika.?

Stjórn Versacold Income Fund telur, eftir að niðurstöður óháðrar nefndar liggja fyrir, að tilboð Eimskips sé sanngjarnt og hagkvæmast sé fyrir hluthafa að taka tilboðinu. Fjárhagslegir ráðgjafar Versacold Income Fund, UBS Investment Bank, hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé fyrir hluthafa að samþykkja tilboðið.

Í tengslum við tilboðið hefur Clarke Inc., stærsti hluthafi Versacold, skuldbundið sig til þess að selja Eimskip 8.259.284 hluti í félaginu eða sem nemur 19,% af útistandandi hlutum.

Að auki hefur KingSett Real Estate Growth LP No.2 skuldbundið sig til þess að selja Eimskip 2.697.720 hluti í félaginu eða sem nemur 6,2% af útistandandi hlutum.

Gert er ráð fyrir að hluthöfum félagsins verði sent formlegt yfirtökutilboð fyrir 13. júní 2007. Tilboðið verður í gildi í a.m.k. 35 daga og er meðal annars háð því að eigendur að 66,67% heildarhlutafjár samþykki tilboðið. Að
auki er tilboðið háð almennum skilyrðum og leyfum frá opinberum eftirlitsstofnunum.

Ef yfirtakan gengur ekki eftir hefur Versacold skuldbundið sig til þess greiða Eimskip 20 milljónir Kanadadollara eða sem nemur rúmlega einum milljarði króna. Tilboðið er að fullu fjármagnað að hálfu Eimskips, Royal Bank of Canada Capital Markets og KingSett. Royal Bank of Canada hefur veitt Eimskip ráðgjöf vegna tilboðsins.

Versacold er leiðandi félag í kæli- og frystigeymslum í Bandaríkjunum og jafnframt á heimsvísu. Félagið á og rekur 72 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Argentínu. Versacold er skráð
í Kauphöllina í Toronto.