Stjórn og lykilstjórnendur Eimskip ákváðu í dag að kæra til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að synja þeim um aðgang að upplýsingum sem liggja að baki heimild eftirlitsins til húsleitar hjá skipaflutningafélaginu og dótturfélagi þess, TVG-Zimsen, 10. september síðastliðinn. Á sama tíma var húsleit gerð á skrifstofum Samskipa og dótturfélaga. Í húsleitarheimild Samkeppniseftirlitsins er vísað til ætlaðs verðsamráðs fyrirtækjanna og brota á samkeppnislögum.

Húsleitin var ein af þeim viðameiri sem Samkeppniseftirlitið hefur ráðist í en til aðstoðar voru lögreglumenn. Húsleitin stóð yfir daglangt og var hald lagt á talsvert magn gagna bæði rafræn og á pappír.

Stjórnendur Eimskips kröfðust þess að fá að sjá hvaða upplýsingar lágu að baki heimildinni. Samkeppniseftirlitið synjaði þeim um það 13. september síðastliðinn.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, stjórnendur og lögfræðingar félagsins funduðu m.a. um málið á vikulegum fundi sínum í dag.

Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðu verði felld úr gildi og veittur aðgangur að þeim upplýsingum og gögnum sem lágu að baki húsleitarheimildinni.