Eimskip hefur gengið frá kaupum á 50% hlut í Kursiu Linija, einu stærsta skipafélagi í Eystrasaltsríkjunum í einkaeigu. Eimskip greindi frá kaupnum á blaðamannafundi fyrr í dag og tók fram að kaupverðið er trúnaðarmál, en Eimskip fjármagnar kaupin með eigin fé.

?Fjárfesting Eimskips í Kursiu Linija er í samræmi við þá stefnu okkar að byggja upp öfluga alhliða flutningaþjónustu í Evrópu og styrkja "intra-Europe" siglingakerfið Eimskips. Kursiu Linija hefur á undanförnum áratug byggt upp dýrmæta viðskiptavild og þekkingu á þessu svæði sem mun nýtast Eimskip og viðskiptavinum félagsins vel," sagði Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips.

Heildartekjur Kursiu Linija á árinu 2005 voru um 46 milljónir evra, sem samsvarar tæpum 4,3 milljörðum króna. Áætlun fyrir 2006 gerir ráð fyrir tekjum upp á 60 milljónir evra og að félagið skili hagnaði á árinu. Stjórnendateymi Kursiu Linija mun starfa áfram með nýjum hluthöfum.

Eimskip segir kaupin á Kursiu Linija hluta af þeirri stefnu Eimskips að verða markaðsleiðandi í alhliða flutningaþjónustu á Norður Atlantshafi með tengingar og starfsemi í lykilhöfnum í Evrópu.

Kursiu Linija var stofnað árið 1995 af núverandi forstjóra, Arijus Ramonas. Kursiu Linija er með þrjár siglingalínur, milli Eystrasaltsríkjanna og Póllands og Bretlands og Benelux, milli Þýskalands og Kaliningrad í Rússlandi og milli Þýskalands og Litháen og Svíþjóðar.

Helstu hafnir sem Kursiu Linija er með starfsemi og tengingar við eru Klaipeda í Litháen, Liepaja í Lettlandi, Gdansk í Póllandi, Ipswich og Teesport í Bretlandi, Rotterdam í Hollandi, Hamborg og Bremerhaven í Þýskalandi og Åhus í Svíþjóð.

Kursiu Linija er með sex skip í rekstri með flutningsgetu frá 300-650 teus (mælieiningin teus samsvarar 20 feta gámaeiningu). Árið 2001 var ákveðið að fjárfesta í 45 feta gámum til viðbótar við hefðbundna 20 og 40 feta gáma til styrkja stöðu fyrirtækisins í samkeppni við landflutningafyrirtæki og til að mæta ákalli Evrópusambandsins sem leitað hefur leiða til að draga úr flutningum á landi á þessu svæði.

Kursiu Linija á um 1.500 45 feta gáma, þurrgáma, frystigáma og gardínugáma, þar sem hægt er að draga upp hliðarveggi við lestun og losun.

Heildarflutningsgeta gámaflotans er um 5.000 teus. Flutningsmagn Kursiu Linija á árinu 2005 var um 140.000 teus einingar og er áætlað flutningsmagn á árinu 2006 220.000 teus einingar. Meðal helstu viðskiptavina félagsins má nefna Masterfood, Procter & Gamble, Gillette og IKEA.