Eimskip hefur gengið frá kaupum á 55% hlut í breska fyrirtækinu Innovate Ltd, en fyrirtækið sérhæfir sig í geymslu og dreifingu á kældum og frystum afurðum. Upphaflega var stefnt að kaupum á 50% hlutafjár í Innovate, en þetta er afar hagstæð niðurstaða fyrir Eimskip segir í tilkynningu félagsins.

Með kaupum á 55% hlutafjár er Innovate tekið inn í efnahag og rekstur Eimskips og þar með móðurfélagsins Avion Group. Að ósk seljanda er kaupverðið trúnaðarmál. Kaupin eru fjármögnuð með blöndu af eigin fé og lánsfé.

Fjárfestingin í Innovate er liður í þeirri stefnu Eimskips að verða leiðandi félag á sviði hitastýrðra flutningum á alþjóðavísu. Með kaupum á hlut í hollenska frystigeymslufyrirtækinu Daalimpex fyrr á árinu og Innovate nú, er Eimskip orðinn ráðandi aðili í Evrópu í geymslu á hitastýrðum matvælum.

Innovate er eitt stærsta fyrirtæki Bretlands á sviði hitastýrðra flutninga með áætlaða veltu upp á rúmlega 15 milljarða ISK á yfirstandandi fjárhagsári. EBITDA framlegð er áætluð um 5-6%. Rekstur Innovate kemur inn í reikninga Eimskips á þriðja ársfjórðungi eða frá 1. maí sl., en uppgjörstímabil Eimskips er frá 1. nóvember til 31. október.

Innovate rekur 25 vörugeymslur á 11 stöðum á Bretlandseyjum og er með 635 flutningabíla og hitastýrða tengivagna. Geymslugeta félagsins er 370 þúsund tonn. Hitastýrð geymslugeta Eimskips á Íslandi er til samanburðar samtals 7.000 tonn. Því er hitastýrð geymslugeta Innovate um 50 sinnum meiri. Stjórnendateymi Innovate mun áfram starfa með nýjum hluthöfum. Hjá Innovate starfa um 1.400 manns.