Eimskip hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á 60% hlut í kínverska gámageymslufyrirtækinu Luyi Depot. Lyi Depot var stofnað árið 2000 og ræður yfir fimmta stærsta gámageymslusvæðinu í Qingdao. Geymslusvæði Luyi Depot er samtals um 110.000 fermetrar og er staðsett í Qingdao höfn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Kaupverð eða veltutölur koma þar ekki fram.

Eimskip hefur samið um kaup á 60% hlut í gámageymslusvæðinu og um kauprétt á 20% til viðbótar. Fyrri eigendur halda 40% hlut og verður frekari rekstur gámageymslusvæðisins byggður upp í samstarfi við þá.

Luyi Depot hefur sterk og góð tengsl við viðskiptavini sína en helstu viðskiptavinir þess eru skipafélögin Maersk, CMA CGM og Yang Ming. Luyi Depot hefur mikla möguleika á að auka við starfsemi sína og Eimskip hefur fullan áhuga á að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækisins.

?Við höfum góða reynslu af uppbyggingu rekstrar í Kína í samstarfi við heimamenn og þá sérstaklega í Qingdao," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips í tilkynningu. "Við ætlum að byggja upp frekari rekstur í samstarfi við núverandi eigendur sem njóta mikils trausts. Þeim hefur tekist að byggja upp gott og ört vaxandi félag. Rekstur gámageymslufyrirtækisins og kæli- og frystigeymslu Eimskips hér í Qingdao styðja vel við hvorn annan.?

Viljayfirlýsingin var undirrituð í Qingdao að viðstöddum forseta Íslands, Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni og háttsettustu ráðamönnum Qingdao.