Eimskip hefur keypt allt hlutafé í CTG í Noregi en fyrir átti félagið 51% hlut í norska fyrirtækinu, segir í tilkynningu frá Avion Group. Avion Group er móðurfélag Eimskips.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en í tilkynningunni segir að kaupin séu liður í straumlínulögun á starfsemi Eimskips. "Mikil samlegðaráhrif nást fram með sameiningunni," segir í tilkynningu félagins.

Þar segir einnig að Eimskip hafi tekið við nýju frystiskipi, Svartfossi, í Álasundi í Noregi á miðvikudaginn. Skipið er það fyrsta af fjórum sem Eimskip mun taka í notkun á næstu misserum og er það hátækniskip með 30-40% meiri afkastagetu en eldri sambærileg skip. Eimskip segir afkastagetu Eimskips-CTG meira en tvöfaldast með tilkomu nýju skipanna, sem verða öll komin í rekstur árið 2007.

Flutningsnet Eimskip-CTG samanstendur nú af 13 frystiskipum og fimm frystigeymslum í Norður og Vestur-Noregi. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á lykilstöðum í Noregi, þegar kemur að sjávarútvegi, eða Álasundi, Sortland, Tromsö, Kirkenes auk Fredrikstad, segir í tilkynningunni.

Nýju skipin eru 80 metra löng og 16 metrar á breidd. Hámarksganghraði þeirra verður 16 sjómílur á klukkustund og burðargeta er 2.500 tonn. Skipin geta borið 1.800 bretti og Tæplega þrjátíu 40 feta gáma á þilfari. Á skipunum er síðuport af fullkomnustu gerð sem styttir löndunar og lestunartíma um allt að helming.