Eimskip hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Innovate Holdings í Bretlandi en fyrir átti Eimskip 55% hlut í Innovate. Innovate er eitt stærsta fyrirtæki Bretlands á sviði hitastýrðra flutninga og rekur 30 vörugeymslur á 11 stöðum á Bretlandseyjum. Kaupverðið er 30,3 milljónir punda eða sem nemur tæpum fjórum milljörðum króna. Kaupverðið verður greitt að fullu með útgáfu nýs hlutafjár í Hf. Eimskipafélagi Íslands, samtals 83.109.531 hlutir. Gengi bréfa í Hf. Eimskipafélags Íslands í viðskiptunum er 45 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Vegna mikils vaxtar í rekstri kæli- og frystigeymslna innan Eimskips verður yfirstjórn samstæðu Eimskips styrkt. Komið verður á fót sérstöku stjórnendateymi sem leiðir þá starfsemi sem snýr að kæli- og frystiflutningum innan Eimskips um allan heim. Helstu stjórnendur Innovate sem eru Stephen Savage, Stephen Dargavel og Pete Osborne munu stýra þessu stjórnendateymi og þannig leiða áframhaldandi uppbyggingu Eimskips á þessu sviði samfara stjórnun Innovate í Bretlandi. Þeir hafa víðtæka reynslu og þekkingu á sviði hitastýrðra flutninga og eignastýringu þ.m.t. fasteigna. Jafnframt koma þeir til með að verða meðal stærstu hluthafa Hf. Eimskipafélags Íslands með 4-5% eignarhlut í félaginu.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips:
?Kaupin eru liður í þeirri stefnu Eimskips að verða leiðandi aðili í hitastýrðum flutningum á alþjóðavísu. Eimskip hefur átt 55% hlut í Innovate í um ár og sáum við mikla vaxtarmöguleika í starfsemi þeirra sem hefur gengið eftir. Innovate hefur leiðandi stöðu í flutningalausnum og birgðastýringu og sú yfirgripsmikla þekking og sérhæfing gefur tækifæri til frekari vaxtar á heimsvísu. Jafnframt koma núverandi stjórnendur Innovate til með að leika lykilhlutverk í yfirstjórn Eimskip. Ég er sérstaklega ánægður að þeir Stephen Dargavel, Stephen Savage og Pete Osborne verði hluti af nýrri yfirstjórn félagsins. Þeirra reynsla og framtíðarsýn mun án vafa styrkja Eimskip enn frekar.?

Stephen Savage, einn af forstjórum Innovate:
?Eftir 12 mánaða árangursríkst samstarf við Eimskip ákváðum við að sameinast Eimskip. Daglegur rekstur Innovate verður áfram í okkar höndum. Auk þess mun félagið verða mikilvægur hlekkur í rekstri kæli- og frystigeymslna Eimskips um allan heim. Viðskiptavinir okkar og starfsfólk munu njóta góðs af þessum samruna og getum við nú boðið upp á heildarlausnir á sviði flutningastarfsemi.?

Innovate er leiðandi á öllum sviðum flutninga í Bretlandi og er velta félagsins um 200 milljónir punda eða sem nemur um 24 milljörðum króna. Eimskip átti fyrir kaupin 55% hlut í Innovate sem félagið eignaðist í maí 2006. Innovate gerir út um 1.200 flutningabíla og hitastýrða tengivagna. Geymslugeta félagsins er 450 þúsund tonn. Hjá Innovate starfa um 2.000 manns. Meðal helstu viðskiptavina Innovate eru: Bakkavör, Tesco, Somerfield, Sainsbury?s, Nestlé og Heinz.