Eimskip mun ekki reyna að taka yfir eða kaupa hluti í Smyril-Line, eins og fregnir síðustu daga hafa hermt. Þetta segir Baldur Guðnason í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Færeyskir fjölmiðlar héldu því fram í vikunni að Eimskip hefði reynt að taka yfir félagið, en hvorki TF Holding né Framtaksgrunnurin, sem eiga til samans meirihluta í Smyril-Line, hafi viljað selja.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, þessar fregnir rangar: "Við höfum aldrei verið með neina tilburði til að yfirtaka félagið, en okkur hefur verið boðið að koma inn í fyrirtækið sem hluthafar."


Eimskip á nú fraktflutningafyrirtækið FaroeShip og höfðu fyrrum eigendur þess félags, fjárfestingarfélagið Tjaldur, milligöngu um að bjóða Eimskip aðkomu að fyrirhugaðri hlutafjáraukningu, en þess má geta að Tjaldur á hlut í Eimskip. Að sögn Baldurs var hugsunin sú að FaroeShip myndi kaupa hlutafé í Smyril-Line í væntanlegu hlutafjárútboði. Baldur segir hins vegar ekkert munu verða af þessu. Forsvarsmenn Eimskips hafi sagt strax að það væri ekki áhersla félagsins að fara með auknum hætti inn í farþega- og ferðaþjónustu. Aðkoma Eimskips að málinu var fyrir tilstuðlan hluthafa í félaginu, Tjalds. Baldur benti einnig á að ef af þessu hefði orðið hefði FaroeShip einbeitt sér að frakflutningastarfseminni, og Smyril-Line að farþegaflutningunum.