Eimskip hefur fest kaup á flutningafyrirtækinu P/F Heri Thomsen í Færeyjum. Fyrirtækið á og rekur um 30 flutningabíla og 3 flutningaskip. Baldur Guðnason forstjóri Eimskips segir kaupin lið í heildaruppbyggingu félagsins en í fyrra sameinaðist Eimskip stærsta skipafélagi Færeyja, Faroe Ship.

Heri Thomsen er markaðsleiðandi í landflutningum á eyjunum og stærsti aðilinn í stórflutningum til og frá Færeyjum. Í fyrra tók félagið í notkun fullkomið 2000 fermetra vöruhús í Runavík.

Með innkomu Heri Thomsen eru Eimskip og Faroe Ship með þrjár áætlunarferðir á viku til og frá Færeyjum. Að auki hafa stórflutningaskip félaganna reglulega viðkomu á eyjunum. Heri Thomsen flytur einkum fiskimjöl og fóður eða tæplega 200.000 tonn á ári.

Thórhallur Thomsen framkvæmdastjóri félagsins verður áfram hjá félaginu, en Heri Thomsen er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var 1957. Velta félagsins er um 60 milljónir danskar krónur (625 milljónir íslenskar krónur) og starfsmenn eru um 60. Félagið er með starfsemi víða í Færeyjum, í Thórshöfn, Runavík, Götu, Skálum og á Suðurey.

Kaupverðið er trúnaðarmál en bæði Baldur og Thorhallur segjast mjög sáttir við verðið. Segir Thorhallur að hækkandi olíuverð hafi leitt til aukins kostnaðar í rekstri sem ýtt hafi undir sölu fyrirtækisins.