P/F Heri Thomsen, dótturfélag Eimskips í Færeyjum, hefur keypt Farmaleiðir, sem hefur verið landflutningahluti Strandfaraskipa. Strandfaraskip er í eigu færeyska ríkisins og hefur sinnt vöru- og fólksflutningum á sjó og landi í Færeyjum segir í tilkynningu Eimskips. Sala Farmaleiða er stærsta einkavæðingaverkefni Færeyinga til þessa.

Rekstur Heri Thomsen og Farmaleiða verður sameinaður undir nafni Farmaleiða sem í kjölfarið verður stærsta fyrirtæki í Færeyjum á sviði landflutninga. Farmaleiðir bjóða heildarþjónustu í gámaflutningum, heilfarmaflutningum, flutningum á stykkjavöru, kæli- og frystiflutningum, fiskflutningum, saltflutningum o.fl. Félagið tengist alþjóðlegu flutningakerfi Eimskips og Skipafélagsins í Færeyjum, en Skipafélagið er dótturfélag Eimskips. Skipafélagið var stofnað árið 1919 og hefur síðan verið leiðandi félag í sjóflutningum til og frá Færeyjum. Með samþættingu á rekstri Heri Thomsen, Skipafélagsins og nú síðast Farmaleiða, er Eimskip vel í stakk búið að bjóða heildarþjónustu á færeyskum flutningamarkaði.

Velta Farmaleiða árið 2005 var um 240 milljónir íslenskra króna. Fyrirtækið hefur rekið 19 flutninga- og sendibíla og 6 lyftara auk fjölda flutningavagna, gáma og tanka. Fjöldi starfsfólks er 21.

Um Eimskip
Eimskip býður heildarþjónustu í flutningum. Þjónustunet Eimskips er sett saman af 54 skrifstofum félagsins í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu, um 30 skipum og 15 frystigeymslum í Evrópu, N-Ameríku og Asíu, ásamt ýmsum dótturfélögum og samstarfsaðilum.

Um Avion Group
Avion Group, móðurfélag Eimskips, er fjárfestingafélag á sviði flutningastarfsemi. Félagið starfrækir 85 starfsstöðvar víðs vegar um heiminn og starfsmenn félagsins eru á fimmta þúsund. Avion Group býður viðskiptavinum sínum traustar, hraðvirkar og hagkvæmar lausnir í flutningum.