Eimskip hefur keypt helmingshlut í kanadíska skipafélaginu Halship Inc. sem sérhæfir sig í gámaflutningum milli Kanada og austurstrandar Bandaríkjanna. Höfuðstöðvar Halship eru í Halifax en félagið er jafnframt með skrifstofu í Boston. Halship rekur eitt 518 gámaeininga skip sem mun sigla milli Halifax og Boston og Nýfundnalands og Boston.

Eimskip og Halship hafa bæði unnið að því að styrkja og bæta flutningastarfsemi sína á þessu svæði og með samstarfinu verður hægt að nýta betur skip beggja félaga og bjóða viðskiptavinum bætta flutningsþjónustu.

Eimskip hefur markvisst unnið að því að byggja upp heildarþjónustu gagnvart viðskiptavinum sínum í Bandaríkjunum og Kanada. Eimskip hefur viðkomu í 6 höfnum í Bandaríkjunum og Kanada á tveggja vikna fresti. Auk eigin skrifstofa í Kanada og á vestur- og austurströnd Bandaríkjanna rekur Eimskip frystigeymslu og umhleðslu- og dreifimiðstöð svo eitthvað sé nefnt.

Það er hluti af stefnumörkun Eimskips að efla starfsemi sína á N-Atlantshafi og auka umsvip sín í flutningum milli hafna erlendis. Með kaupum Eimskips á Halship Inc. mun Eimskip styrkja verulega starfsemi og þjónustuframboð sitt á austurströnd Bandaríkjanna og Kanada auk þess sem töluverð hagræðing næst af. Flutningsgeta mun aukast á þessum slóðum þar sem nú verða vikulegar siglingar í boði milli Kanada og Bandaríkjanna en áður voru aðeins siglingar í boði á hálfsmánaðar fresti segir í tilkynningu félagsins.