Eimskip hefur gengið frá kaupum á hollenska flutningsmiðlunarfélaginu Jac. Meisner Internationaal Expeditiebedrijf B.V. Jac. Meisner var stofnað árið 1959 og er staðsett á hafnarsvæðinu í Rotterdam. Félagið sérhæfir sig í tollskjalagerð, heilbrigðiseftirliti og móttöku og eftirliti á frystum og kældum vörum til innflutnings til Evrópulanda að því er segir í tilkynningu.

„Ég er ánægður með að Jac. Meisner verði nú hluti af Eimskip og hlakka til að vinna með starfsmönnum fyrirtækisins. Kaupin munu styrkja þjónustu við viðskiptavini Eimskips og viðskiptavinir Jac. Meisner munu einnig njóta góðs af alþjóðlegu flutninganeti Eimskips. Kaupin eru liður í stefnu Eimskips um ytri vöxt og munu styrkja enn frekar alþjóðlega frystiflutningsmiðlun félagsins," segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips í tilkynningu.

Árleg velta fyrirtækisins nemur um 7,5 milljónum evra og með áætluðum samlegðaráhrifum við starfsemi Eimskips er gert ráð fyrir að EBITDA hlutfall fyrirtækisins verði á bilinu 8-9%.