Eimskip hefur gengið frá kaupum á meirihluta hlutafjár í hollenska frystigeymslufyrirtækinu Daalimpex. Seljandi er stofnandi fyrirtækisins, Peter Blankendaal, en það var stofnað árið 1976. Kaupverð er ekki gefið upp en núverandi eigandi á möguleika á að breyta hlutafé sínu í fyrirtækinu þegar Avion, móðurfélagi Eimskipa, verður fleytt í íslensku Kauphöllinni í janúar. Hann hefur einnig sölurétt á 49% hlut sínum.

Heildarvelta sameinaðs fyrirtækis utan áætlannasiglinga verður um níu milljarðar kr. EBITDA sameinaðs félags verður á bilinu 10-15%.

Daalimpex er stærsta frystigeymslufyrirtæki í Hollandi og með þeim stærstu í Evrópu á þessu sviði. Heildarfrystigeymslupláss félagsins er 220 þúsund tonn. Það er 25 sinnum stærra en geymluspláss Eimskipa á Íslandi. 120 starfsmenn eru hjá félaginu og er gert ráð fyrir að helstu stjórnendur verði allir áfram hjá félaginu. Þá munu allar lóðir og fasteignir fylgja með í kaupunum.