Eimskip hefur keypt 90% hlut í flutningsmiðlunarfyrirtækinu Extraco Internationale Expedite B.V. í Hollandi.

Fyrirtækið Extracto var stofnað árið 1991 og er staðsett við stærstu höfn Evrópu, Rotterdam. Helstu þjónustuþættir þess eru þjónusta við innflytjendur á frysti- og kælivöru til Hollands, auk þess að sjá um innflutningspappíra, birgðahald, tollafgreiðslu og dreifingu á frystum og kældum afurðum í Evrópu. Ársvelta fyrirtækisins nemur um 19 milljónum evra eða um 2,5 milljörðum króna, segir í tilkynningu frá Eimskipum.

„Unnið verður að því að ná fram samlegðaráhrifum með því að flytja fyrirtækið í starfsstöð Eimskips í Rotterdam í byrjun næsta árs, þar sem myndaður verður frystiflutningskjarni með öðrum einingum Eimskips, sem eru European Transport Services (E.T.S.), Eimskip Reefer Logistics og Jac. Meisner.

Þetta er fyrsta fjárfesting af nokkrum sem Eimskip áformar til eflingar á kjarnastarfsemi sinni á komandi mánuðum. Kaupin munu styrkja og auka fjölbreytileika í flutningsmiðlunarstarfsemi félagsins í Hollandi,“ kemur einnig fram í tilkynningunni.

Haft er eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að Eimskip bjóða Extraco velkomið í samstæðu Eimskips og að fyrirtækið viti að samlegðaráhrif, aukin fjölbreytni og dýrmæt reynsla starfsmanna Extraco muni nýtast þeim vel til að byggja enn frekar upp flutningsmiðlunareiningu sína.