*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 2. maí 2018 19:44

Eimskip lækka afkomuspá

Eimskip hafa lækkað afkomuspá vegna lakari afkomu á fyrsta ársfjórðungi ársins en gert var ráð fyrir.

Ritstjórn
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa.
Haraldur Guðjónsson

Eimskip hafa lækkað afkomuspá sína úr 60-65 milljónum evra í 57-63 milljónir evra vegna lakari afkomu á fyrsta ársfjórðungi en spár gerðu ráð fyrir. 

Í tilkynningu frá félaginu segir að áætlað sé að EBIDTA á fyrsta ársfjórðungi verði á bilinu 7-7,5 milljónir evra. Í fyrra var EBIDTA félagsins 9,3 milljónir evra auk þess sem að þá hafði átt sér stað sjómannaverkfall sem hafði neikvæð áhrif á EBIDTA um 2,3 milljónir evra. 

Á fyrsta ársfjórðungi 2018 nam vöxtur á öllum sex leiðum í áætlunarsiglingum félagsins 4%. Í tilkynningunni segir að innflutningur til landsins hafi verið undir væntingum, útflutningur aukist vegna aukins magns af ferskum og frosnum fisk í kerfum félagsins, en loðnuvertíðin hafi haft neikvæð áhrif á magn í útflutningi. Þá hafi verið aukning á flutningum yfir atlantshafið. Innflutningur til Færeyja hafi aukist en útflutningur verið undir væntingum. 

Ennfremur hafi kostnaður af stækkun á siglingakerfi félagsins numið 2,5 milljónum evra. 

Eimskip gera ráð fyrir að magn tengt samningi félagsins við CMA CGM á Grænu línunni á milli Halifax og Portland muni skila sér á öðrum ársfjórðungi. Þá er einnig gert ráð fyrir að flutningur fyrir kísilver PCC á Bakka á strandleiðinni hefjist á öðrum ársfjórðungi.

Á fyrsta ársfjórðungi jókst magn í flutningsmiðlun félagsins um 10%, að mestu vegna innri vaxtar. „Þrátt fyrir aukningu í magni er afkoma flutningsmiðlunar undir væntingum sem skýrist að mestu leyti vegna aðstæðna í Afríku sem eru tilkomnar vegna skorts á erlendum gjaldeyri. Það ástand hófst á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og hélt áfram á fyrsta ársfjórðungi 2018.“

Loks hefur veiking dollars um 16% gagnvart evru frá fyrsta ársfjórðungi 2017 neikvæð áhrif á afkomu félagsins vegna vægis dollars í myntsamsetningu félagsins.