*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 24. maí 2018 12:46

Eimskip lækkað um 29% í söluferlinu

Virði eignarhlutar stærsta hluthafa Eimskipa hefur lækkað um 3,8 milljarða króna frá því að hluturinn fór í söluferli.

Ritstjórn
Gyilfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa.
Haraldur Guðjónsson

Gengi hlutabréfa í Eimskip hefur lækkað um 29% frá því að stærsti hluthafi félagsins, The Yucaipa Companies, tilkynnti í lok nóvember að félagið væri með til skoðunar að selja hlut sinn í félaginu. Gengi bréfanna hefur ekki verið lægra frá skráningu félagsins á markað. 

The Yucaipa Companies varð stærsti hluthafi félagsins eftir fjárhagslega endurskipulagningu þess árið 2009 og á í dag 25,3% hlut í Eimskip. Eignarhluturinn er metinn á ríflega 9 milljarða króna en var 12,8 milljarða virði þegar söluferlið hófst samkvæmt gengi bréfa Eimskips í Kauphöll Íslands. Verðmæti eignarhlutar The Yucaipa Companies hefur því lækkað um 3,8 milljarða króna frá því að söluferlið hófst.

Eimskip hefur tvívegis lækkað afkomuspá félagsins á þessu ári, fyrst í janúar vegna afkomu ársins 2017 og svo eftir uppgjör fyrsta ársfjórðungs vegna væntrar afkomu ársins 2018.

Þá greindi Eimskip frá því á sunnudagskvöld að Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, og Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips, hefðu verið kallaðir til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara þann 11. maí vegna rannsóknar á samkeppnislagabrotum fyrirtækisins og hefðu hlotið réttarstöðu sakborninga.