Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2017 er EBITDA Eimskips, það er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, á bilinu 57 til 58 milljónir evra. Þetta er undir þeirri 60 til 62 milljóna evra afkomuspá sem gefin var út þann 21. nóvember 2017, en um 7,5% hærra en EBITDA ársins 2016 segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Ýmsar ástæður leiddu til þess að afkoman í nóvember og desember var undir væntingum. Stærsti áhrifavaldurinn var að útflutningur frá Íslandi og Færeyjum var minni en gert hafði verið ráð fyrir. Eimskip jók á sama tíma  afkastagetu siglingakerfis síns til að uppfylla skuldbindingu sína um vikulega þjónustu á öllum siglingaleiðum segir jafnframt í tilkynningunni.

Félagið vinnur að gerð ársreiknings fyrir árið 2017 og endurskoðun stendur nú yfir. Ofangreind afkomuspá getur tekið breytingum í uppgjörsferlinu og endurskoðuninni.

Í samræmi við fjárhagsdagatal mun Eimskip birta ársreikning sinn fyrir árið 2017 þann 22. febrúar 2018 og mun kynna afkomu ársins 2017 og afkomuspá fyrir árið 2018 á fjárfestafundi sem haldinn verður 23. febrúar kl. 8:30 að Korngörðum 2 í Reykjavík.