Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 2,9 milljarða króna veltu á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar. Reginn hækkaði mest allra félaga eða um 2% í 49 milljóna króna viðskiptum.

VÍS fylgdi þeim á eftir í 1,3% hækkun í 535 milljóna króna veltu. Hin tvö tryggingafélögin hækkuðu einnig í viðskiptum dagsins eða Sjóvá um 1,1% og TM um 0,2%.

Eimskip lækkaði mest allra félaga eða um 2,8% í 425 milljóna króna veltu en gengi félagsins endaði í 280 krónum á hlut. Hlutabréf Eimskips hafa engu að síður hækkað um 8,5% það sem af er ári og rúmlega 87% á ársgrundvelli þrátt fyrir lækkun dagsins.

Mesta veltan var með bréf Arion banka sem lækkuðu um tæplega eitt prósent í 560 milljóna króna viðskiptum. Töluverð velta  var einnig á hlutabréfum Marel, eða um 436 milljónir króna, sem hækkuðu um 0,7% og enduðu daginn í genginu 885 krónum á hlut.