Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,57% í viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1716,85 stigum eftir tæplega 3 milljarða viðskipti.

Gengi bréfa Eimskips lækkaði um 6,19% í 321 milljóna viðskiptum en félagið birti í gær uppgjör fyrir annan ársfjórðung þar sem kom fram að hagnaður hafi dregist saman um 44% milli ára. Þá lækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 3,1% í 236 milljóna viðskiptum og Marel um 2,28% í 192 milljóna viðskiptum

Gengi bréfa VÍS hækkaði um 3,47% í 161 milljóna króna viðskiptum og TM um 1,2% í 295 milljóna viðskiptum. Bæði félög birtu uppgjör fyrir annan ársfjórðung í gær.

Mest velta var í viðskiptum með bréf Símans sem hækkuðu um 3,05% í 842 milljóna króna viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,18% í 5,6 milljarða viðskiptum. Þar lækkaði verðtryggði hluti vísitölunnar um 0,43% á meðan sá óverðtryggði hækkaði um 0,37%.