Eimskip [ HFEIM ] hefur samið um sölu á 49% hlut í Northern Lights Leasing, sem er eigandi flugflota Air Atlanta, fyrir um tvo milljarða króna. Með sölunni hefur Eimskip selt sig að fullu út úr flugrekstri og munu stjórnendur einbeita sér að meginstarfsemi félagsins, sem eru flutningar og rekstur á kæli- og frystigeymslum, að því er segir í tilkynningu.

Kaupandinn er AAI Holding, félag í eigu Hannesar Hilmarssonar forstjóra Air Atlanta og Geirs Vals Ágústssonar fjármálastjóra sama félags. Söluverðið er um 22 milljónir evra, rétt um 2 milljarðar króna, en flugfloti Air Atlanta samanstendur af 13 breiðþotum.

Í tilkynningu Eimskips er haft eftir Baldri Guðnasyni forstjóra félagsins að stefna þess hafi verið að selja flugreksturinn út úr félaginu. Þetta sé stór áfangi og í framhaldinu muni félagið einbeita sér enn frekar að meginstarfsemi sinni.

Í tilkynningunni er haft eftir Hannesi Hilmarssyni forstjóra Air Atlanta að mikil tækifæri felist í rekstri Northern Lights Leasing samhliða rekstri flugfélagsins Air Atlanta. „Við nýtum í dag helming flugflota NLL í verkefni á vegum Air Atlanta, en leigjum hinar vélarnar í þurrleigu með góðri afkomu til annarra flugfélaga.  Þessi háttur gefur okkur aukinn sveigjanleika til að nýta flugvélarnar og hámarka arðsemina af þeirri fjárfestingu sem að liggur í flugvélunum,“ er haft eftir Hannesi.