Eimskip hefur lokið yfirtöku á Versacold Income Fund. Þann 1. ágúst greiddi Eimskip fyrir og eignaðist þar með þá hluti í Versacold Income Fund sem yfirtökutilboð félagsins náði til en eigendur um 93% hlutafjár í Versacold höfðu tekið yfirtökutilboði Eimskips segir í tilkynningu. Að auki á Eimskip rétt á að eignast alla hluti í Versacold samkvæmt yfirtökutilboðinu eða samtals 58.950.024 hluti.

Versacold hefur nú þegar óskað eftir að afskrá alla hluti félagsins í Kauphöllinni í Toronto og mun óska eftir því við Fjármálaeftirlit Kanada að losna undan skyldum sem skráð félag.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu: ?Versacold er mjög gott fyrirtæki með sterkt stjórnendateymi, sem hefur byggt upp öflugt fyrirtæki sem við ætlum að nýta sem sterkan grunn til frekari vaxtar. Öflugt flutninganet Eimskips styður vel við núverandi áætlanir Versacold um að efla til muna starfsemi sína í kæli- og frystigeymslum og flutningum. Með yfirtöku á Versacold er Eimskip leiðandi aðili í hitastýrðum flutningum á alþjóðavísu og vel í stakk búið til að tryggja að framtíðarsýn samstæðunnar verði að veruleika.?

Brent Sugden, forstjóri Versacold, segir í tilkynningu: ?Framundan eru spennandi tímar fyrir Versacold þar sem fyrirtækið verður hluti af ört vaxandi alþjóðlegu flutninga og kæli- og frystigeymslufyrirtæki. Það gleður mig sérstaklega að stjórnendur Eimskips hafi komið auga á þau tækifæri sem felast í rekstri Versacold og ætli sér að styðja okkar markmið um áframhaldandi vöxt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með dugnaði og orku Baldurs og stjórnendateymisins Eimskips að undanförnu og ég tel að Eimskip og Versacold séu vel í stakk búin til að bæta enn frekar þjónustuframboð sitt.?

Eimskip er nú orðið stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heimi með um 180 kæli- og frystigeymslur í fimm heimsálfum. Eimskip hefur að undanförnu byggt upp öflugt net frysti- og kæligeymslna og ræður fyrirtækið einnig yfir öflugu flutninganeti sem styður við geymslugetu félagsins.

Versacold rekur 72 frysti- og kæligeymslur í Norður Ameríku, Suður Ameríku og Eyjaálfu. Versacold er þriðja stærsta kæligeymslu fyrirtæki Kanada og Norður Ameríku. Að auki er félagið annað stærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki Ástralíu og Argentínu og það þriðja stærsta á Nýja Sjálandi. Staðsetning frysti- og kæligeymslna Versacold styður við og þéttir öflugt net geymslna í eigu Eimskips um allan heim.

Í tilkynningu segir að starfsemi Eimskips mun verða á öllum helstu markaðssvæðum heimsins og er félagið vel staðsett til að taka þátt í þeim vexti sem spáð er í geymslu matvæla á næstu árum.

Velta Versacold á síðasta ári var 693 milljónir Kanadadollara eða um 40 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var um 100 milljónir Kanadadollara eða um 6 milljarðar króna. Félagið hefur vaxið mikið á síðustu árum bæði með yfirtökum og innri vexti. Stjórnendateymi Versacold er öflugt og reynslumikið og kemur til með að vinna náið með nýjum eigendum að frekari vexti félagsins. Versacold var stofnað fyrir um 60 árum og starfsfólk félagsins er um 4.500.

Velta Eimskips eykst um 40 milljarða króna vegna kaupanna og verður um 150 milljarðar króna á ársgrundvelli á næsta ári. Velta Eimskips á yfirstandandi ári er áætluð um 100 milljarðar króna.

Á síðasta ári keypti Eimskip Atlas, annað stærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki Norður Ameríku en starfsemi þess félags svipar mjög til starfsemi Versacold. Mikil tækifæri felast í því að reka þessi tvö fyrirtæki samhliða bæði hvað varðar landfræðilega staðsetningu sem og viðskiptamódel félaganna.

Um Eimskip

Eimskip býður viðskiptavinum heildarlausnir í flutningum, þ.m.t. skipaflutninga, flugflutninga og landflutninga, með sérstakri áherslu á hitastýrða flutninga og geymslu, Eimskip rekur um 280 starfsstöðvar í yfir 30 löndum. Fyrirtækið er með 50 skip í rekstri, 25 flugvélar, 2.000 flutningabíla og tengivagna og um 180 frystigeymslur. Starfsmenn eru um 14.500.