Samanlagt munu þrír eigendur EImskipafélags Íslands hf. bjóða til sölu 25% af útgefnu hlutafé í félaginu við skráningu þess á hlutabréfamarkað. Útboðinu verður skipt í tvö mismunandi tímabil, lokað áskriftarferli annars vegar og almennt útboð hins vegar.

Þetta kemur fram í samantekt skráningarlýsingar sem birt var seint í gærkvöldi. Seljendurnir þrír eru Landsbanki Íslands, ALMC og Samson eignarhaldsfélag.

Lokaða ferlið hefst í dag og lýkur þann 25. október. Þar verður takmörkuðum fjölda fjárfesta, völdum af félaginu félaginu og ráðgjöfum þess, boðið að skrá sig fyrir hlutum í félaginu á verðbilinu 205 til 225 krónur á hlut. Straumur fjárfestingabanki og Íslandsbanki sjá um skráningarferlið fyrir hönd Eimskips.

Í almenna útboðinu, sem verður haldið dagana 30. október til 2. nóvember, verður almennum fjárfestum boðið að skrá sig fyrir hlutum á föstu útboðsgengi. Verð verður ákveðið með hliðsjón af eftirspurn í lokaða áskriftarferlinu og verða seld á sama útboðsgengi.

Í fyrrnefnda ferlinu verður um 20% hlutur seldur en 5% í því síðarnefnda. Félagið sjálft mun þó bjóða til sölu um 3% af eigin hlut verði umframeftirspurn í almenna útboðinu.