Eimskipafélag Íslands mun ekki aðeins áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um 310 milljón króna sektargreiðslu vegna samkeppnisbrota á árunum 2001-2002 til áfrýjunarnefndar, heldur ef þess gerist þörf vísa málinu til úrskurðar dómstóla, að sögn Heiðrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra starfsþróunar og samskiptasviða Eimskips. Telur eftirlitið brotið gegn þeirri grein samkeppnislaga sem fjallar um misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu og að félagið hafi ætlað sér að ná umtalsverðum viðskiptum af Samskipum með ólögmætum. Upphæðin sem um ræðir, 310 milljónir króna, mun vera hæsta stjórnvaldssekt sem fyrirtæki hefur verið gert að greiða vegna slíkra brota hérlendis.

Hugsanleg skaðabótaábyrgð skoðuð síðar

Meðan á rannsókn eftirlitsins stóð mótmælti Eimskipafélag Íslands að hún beindist gegn því í ljósi þess að eigendaskipti urðu á tímabilinu. Eftirlitið tók afstöðu til þess sjónarmiðs og var niðurstaða þess sú að „í ljósi eðlis þeirra skipulagsbreytinga sem gerðar voru á Hf. Eimskipafélagi Íslands verður að telja að fyrirtækið, þ.e. flutningastarfsemin, sem Eimskip ehf. tók við og rak frá ársbyrjun 2003 sé sama fyrirtæki og Hf. Eimskipafélag Íslands rak fram til þess tíma.” Er í úrskurðinum áréttað það meginsjónarmið samkeppnisréttar að „breyting á lagalegu formi og nafni fyrirtækis hefur ekki nauðsynlega þau áhrif að skapa nýtt fyrirtæki sem enga ábyrgð beri á brotum fyrirrennara síns, þegar báðir aðilarnir eru í efnahagslegum skilningi einn og hinn sami.” Ábygðin fylgi sem sagt Eimskipi án tillits til að  félagið var á sínum tíma  selt til Avion Group hf. og síðar sameinað því félagi.

„Fyrirtækið gekkst undir eigendaskipti á þeim langa tíma sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins stóð yfir og núverandi eigendur eru alfarið þeirrar skoðunar að félagið í dag eigi ekki aðild að málinu. Við munum fylgja málinu fast eftir og verjast eins lengi og unnt er og ef þess gerist þörf vísa málinu til Hæstaréttar. Það gæti þýtt að ekki fáist endanleg niðurstaða í málið fyrr en að tveimur árum liðnum,” segir Heiðrún.

Aðspurð hvort til greina komi að fyrirtækið geri endurkröfu á hendur fyrri eigendum eða stjórnendum, verði lokaniðurstaða sú að því verði gert að greiða háar sektir, segir Heiðrún ótímabært að velta vöngum yfir til hvaða ráða fyrirtækið grípi. „Verði það niðurstaðan verður málið einfaldlega ítarlega skoðað. Allar slíkar ákvarðanir yrðu teknar hjá stjórn fyrirtækisins þegar að því kemur en ljóst er að núverandi stjórn og stjórnendur telja ábyrgðina ekki þeirra.” segir hún.

Guðmundur Sigurðsson, prófessor í lögum og sérfræðingur í skaðabótarétti, segir að skoða verði hvert tilvik fyrir sig þegar úrskurðað er um hugsanlega skaðabótaskyldu aðila í máli sem þessum.

„Meginreglan er sú að hafi menn með einhverri saknæmri háttsemi valdið öðrum tjóni geti þeir þurft að bera á því ábyrgð, en menn geta einnig samið sig undan ábyrgð,” segir Guðmundur. „Ég veit ekki hvernig gengið var frá málum þegar núverandi forsvarsmenn félagsins keyptu það á sínum og því erfitt að tjá sig um einstök atriði.

Það lá væntanlega ljóst fyrir að rannsókn samkeppnisyfirvalda stæði yfir og spurningin er um hvað var samið, þ.e. hvort menn hafi keypt með þá áhættu í farteskinu að til sektar kynni að koma. Ekki er óeðlilegt að ætla að sú vitneskja hefði legið fyrir, að minnsta kosti að rannsókn lægi fyrir, og þá sé ég ekki í fljótu bragði að grunvöllur sé fyrir endurkröfu. Meginreglan er sú að ef menn kaupa eitthvað, eignast þeir um réttindi og skyldur sem fylgja, hafi menn ekki samið um annað. Hafi fyrri eigendur gert lítið úr hugsanlegum afleiðingum rannsóknar samkeppnisyfirvalda má fræðilega séð segja að sá möguleiki sé fyrir hendi að grundvöllur myndist til að gera kröfu um bætur, en þetta eru auðvitað vangaveltur, því skoða þarf málið sjálft til að svara þessu með einhverri vissu.”

Markaðsráðandi eða ekki?

En ekki er eingöngu deilt um aðild málsins. Deilt er einnig um hvort að félagið hafi verið markaðsráðandi eða ekki en það er skilyrði fyrir því að hægt sé að beita 11. gr. samkeppnislaga. Heiðrún bendir á í því sambandi að lagðar hafi verið fram tvær greinargerðir hagfræðinga í málinu, önnur frá árin 2003 eftir Gylfa Magnússon hagfræðing og núverandi stjórnarformann samkeppniseftirlits þar sem niðurstaða hans var sú að „Eimskip geta ekki talist markaðsráðandi ef eðlilegur skilningur er lagður í núverandi skilgreiningu laga á markaðsráðandi stöðu. Fyrirtækið býr ekki við þá stöðu að það geti að „verulegu leyti” starfað án þess að taka tillit til keppinauta. Það býr heldur ekki við þá stöðu að það geti að „verulegu leyti” starfað án þess að taka tillit til viðskiptavina. Þvert á móti virðist augljóst að fyrirtækið tekur og verður að taka tillit til viðbragða bæði viðskiptavina og keppinauta við ákvörðunum sínum og sömuleiðis bregðast Eimskip við ákvörðunum þeirra.”

„Í greinargerð Friðriks Más Baldurssonar frá 2007 er tekið í sama streng þ.e. að Eimskip höfðu ekki getu til að starfa án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytanda. Samkvæmt skilgreiningu laganna var Eimskip því ekki markaðsráðandi í áætlunarflutningum á sjó á árunum 2001-2002,” segir Heiðrún.