Hagnaður Eimskips á þriðja ársfjórðungi nam 5,7 milljónum evra, sem er 13,4% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 5.1 milljón. Jafngildir þetta því að hagnaðurinn á tímabilinu hafi numið um 940 milljónum króna. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs nam hagnaður Eimskips 13,7 milljónum evra, en var 12,5 milljónir á sama tímabili árið 2011.

Velta fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 8,5% milli ára og nam 308,8 milljónum evra. Eignir Eimskips í lok september námu 303,1 milljónum og skuldir námu 112,7 milljónum evra. Eigið fé félagsins er því 190,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall 62,8%.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að flutningsmagn í áætlanaflutningum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 6,3% fyrstu níu mánuði ársins miðað við sama tímabil 2011, en magn í frystiflutningsmiðlun á þriðja ársfjórðungi dróst aftur á móti saman um 12,7% frá fyrra ári. Endurspeglar það þróun markaða í Asíu, en þrátt fyrir að magnið sé að minnka þá hefur framlegðin í frystiflutningsmiðlun ekki lækkað að sama skapi, að því er segir í tilkynningunni. Helstu ástæður fyrir minnkandi magni tengjast ekki flutningi á frystum sjávarafurðum heldur minnkandi flutningum á öðrum afurðum frá Asíu til Evrópu.