*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 16. október 2020 16:29

Eimskip og Icelandair leiða hækkanir

Hlutabréf þrettán félaga hækkuðu í virði í dag. Gengi úrvalsvísitölunnar hefur aldrei verið hærra.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala OMXI10 hélt áfram að hækka í viðskiptum dagsins en hún hefur aldrei verið hærri. Alls hækkaði hún um 0,14% og stendur í 2.223 stigum en hlutabréf þrettán félaga hækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréf tveggja félaga stóðu í stað og gengi bréfa hjá fjórum félögum lækkaði. Hlutabréf sjö félaga hækkaði um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins.

Heildarvelta nam 3,7 milljörðum króna og hefur hlutabréfamarkaðurinn verið nokkuð virkur undanfarna daga samanborið við nýliðinn september þegar meðalvelta nam 1,7 milljörðum króna. Mest velta var með hlutabréf VÍS eða fyrir 828 milljónir króna í 18 viðskiptum. Bréf félagsins standa í 11,55 krónum en þau hækkuðu um hálft prósentustig í dag og hafa hækkað um 7,5% síðasta mánuðinn. 

Sjá einnig: PAR selur allan hlut sinn í Icelandair

Næst mest velta var með bréf Icelandair sem hækkuðu um 2,13% en PAR Capital hefur selt allan hlut sinn í Icelandair með milljarðatapi. Félagið var stærsti hluthafi Icelandair þegar faraldurinn skall á.

Sjá einnig: Bréf Eimskips rétta úr kútnum

Mest hækkun var á hlutabréfum Eimskips um 7,05% sem standa nú í tæplega 160 krónum hvert. Veltan nam 43 milljónum króna og viðskiptin voru 20. Á mánudag birtist verðmat fyrir Eimskip þar sem hvert hlutabréf var metið á 195 krónur. Síðan þá hafa bréf félagsins hækkað um 17 prósentustig síðan þá.

Auk áðurnefnda félaga hækkuðu bréf Kviku, Sjóvá, Arion, Sýnar og Reita um meira en eitt prósent. Hlutabréf Marel lækkuðu um 0,41% sem skýrir að miklu leiti af hverju vísitalan hækkaði ekki meira en ella þar sem markaðsvirði félagsins er um 60% af virði vísitölunnar.